Fara á efnissvæði
22. maí 2018

Hreyfivika UMFÍ: Gott að brjóta vinnudaginn upp með hreyfingu

Hreyfivika UMFÍ verður haldin í sjöunda sinn dagana 28. maí til 3. júní nk. Þátttakendum fjölgar með hverju árinu. Það er allt að þakka kraftmiklum boðberum hreyfingar.

Bjarney Guðrún Jónsdóttir á Vopnafirði hefur staðið fyrir fjölmörgum viðburðum í gegnum árin. Við spurðum hana að því hvaða ráð hún eigi fyrir þá sem vilja gleðja aðra og gerast boðberar hreyfingar.

Nú hefur þú verið boðberi hreyfingar í Hreyfiviku UMFÍ undanfarin ár – hvernig hefur það verið að taka þátt í þessu verkefni?

„Mér hefur alltaf þótt gaman að taka þátt og bjóða upp á einhverja tilbreytingu í samfélagi mínu sem hvetur til hreyfingar.“

Hvað gefur það þér að taka þátt í svona verkefni?

„Það gefur mér mikið. Ég hef gaman af því að koma nýjum hugmyndum á framfæri og einhvern veginn er ég alltaf tilbúin að vinna við hreyfitengd verkefni þar sem hreyfing og lýðheilsa eru áhugamál mín.“

Finnst þér lýðheilsuverkefni sem þetta skipta máli fyrir sveitarfélagið/samfélagið?

„Það skiptir sannarlega máli. Hvatning er mikilvæg og svona hvetjandi verkefni koma oft og tíðum einhverjum af stað, sumir taka þátt í átakinu en hætta svo en aðrir halda áfram reglubundinni hreyfingu og þótt það sé bara einn þá finnst mér það mikill sigur og verkefnið hefur áhrif.“

Ertu með góð ráð handa öðrum boðberum – eða verðandi boðberum – í Hreyfivikunni í ár?

„Að taka endilega þátt og muna að allar hugmyndir eiga rétt á sér og það þarf ekki að vera flókið skipulag eða full dagskrá alla daga, allt hefur áhrif. Stundum er það einfalda bara betra.“

Hvernig geta fyrirtæki tekið þátt?

„Fyrirtæki geta tekið þátt með því að bjóða upp á einhvers konar uppbrot tengt hreyfingu á sínum vinnustað. Ef um stór fyrirtæki er að ræða geta þau haft mikil áhrif á starfsfólk sitt með því að bjóða upp á reglubundna hreyfingu og taka þátt í Hreyfivikunni með því að setja upp einhvern skemmtilegan viðburð í sveitarfélagi sínu.“

Hver er uppáhaldshreyfing þín og á fjölskylda þín sameiginleg áhugamál?

„Uppáhaldshreyfing mín er útivera, blak og svo hef ég mjög gaman af lyftingum.“

 

Viðtalið við Bjarneyju er í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þú getur nálgast blaðið í sundlaugum og íþróttamiðstöðvum víða um land. Skinfaxi er líka á netinu.

Smella hér og lesa Skinfaxa

 

Hér má sjá myndir frá ýmsum viðburðum í Hreyfiviku UMFÍ í gegnum tíðina.