Fara á efnissvæði
12. október 2019

Hrönn og Örn sæmd gullmerki UMFÍ

Örn Guðnason og Hrönn Jónsdóttir voru sæmd gullmerki UMFÍ á sambandsþingi UMFÍ. Þau sitja bæði í stjórn UMFÍ. Örn er varaformaður UMFÍ en Hrönn ritari. Hvorugt þeirra gefur kost á sér í stjórn ungmennafélagshreyfingarinnar. Hrönn er 33 ára og á meðal yngstu ungmennafélaga sem hlotið hafa gullmerki UMFÍ í rúmlega 110 ára sögu ungmennafélagshreyfingarinnar.

Örn Guðnason hefur verið varaformaður UMFÍ síðastliðin fjögur ár. Hann var ritari stjórnar UMFÍ 2007-2011 og 2013-2015. Hann hefur setið samtals í 10 ár í stjórn UMFÍ. Þá sat Örn í sex ár sem varaformaður í stjórn HSK og framkvæmdastjóri Ungmennafélags Selfoss 2006-2013.

Hann hefur setið í fjölda framkvæmdanefnda landsmóta og annarra nefnda fyrir hreyfinguna. Þá var hann framkvæmdastjóri HSS árin 1982-1983. Örn kemur frá Hvolsvelli, ólst upp í Ungmennafélaginu Baldri og var formaður þess árin 1978-1980. Hann situr í stjórn Íslenskrar Getspár og í Íþróttanefnd ríkisins fyrir hönd UMFÍ.

Hrönn Jónsdóttir, ritari UMFÍ, hefur setið í stjórn UMFÍ síðastliðin sex ár. Hún hefur nú ákveðið að stíga til hliðar, a.m.k. í bili. Hún var fyrst meðstjórnandi 2013-2015 og tók svo við ritarastöðu stjórnar 2015-2019.

Hún var framkvæmdastjóri UMSB um tíma.

Hrönn er úr Lundarreykjadal í Borgarfirði og ólst þar upp í ungmennafélagsumhverfi, starfaði þar í sínu félagi. Nú er Hrönn flutt á Suðurland og býr þar með fjölskyldu á bænum Háholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, afhenti þeim viðurkenninguna og bætti við Hrönn muni örugglega eitthvað láta til sín taka meðfram búskapnum á Suðurlandi.

„Ég vil ítreka þakkir ungmennafélagshreyfingarinnar til þessara einstaklinga og tel að leitun sé að fólki sem eru jafn miklir ungmennafélagar og þau. Um leið óska ég þeim velfarnaðar í því sem þau taka sér fyrir hendur,‟ sagði hann.

 

Hrönn og Haukur eru á myndinni hér að ofan en Haukur og Örn hér að neðan.