HSH tókst loksins að halda héraðsþing
Samþykkt var á héraðsþingi Héraðssambands Snæfellsness- og Hnappadalssýslu (HSH) sem fram fór í gær að greiða út þrjár milljónir króna til aðildarfélaga. Hjörleifur K. Hjörleifsson segir gott að geta styrkt grasrótarstarfið með þessum hætti í stað þess að eiga uppsafnaða peninga á bók.
Litlar breytingar urðu á stjórn HSH að því undanskildu að Ragnhildur Sigurðardóttir, sem sat þar fyrir hönd UMF Staðarsveitar, gaf ekki kost á sér lengur. Í hennar stað kom í stjórnina Kristfríður Rós Stefánsdóttir frá Ungmennafélaginu Víkingi/Reyni í Ólafsvík og Hellissandi.
Með þinginu í gær voru tvö þing slegin saman í eitt þar sem ekki tókst að halda þing í fyrra. Hjörleifur segir það hafa gengið vel og sinn vanagang.
Guðmundur Sigurbergsson, gjaldkeri stjórnar UMFÍ, var fulltrúi UMFÍ á þinginu og hélt hann ávarp um þá breytingu sem unnið er að um skiptingu lottós, Unglingalandsmót UMFÍ sem verður á Selfossi um verslunarmannahelgina, Landsmót UMFÍ 50+ sem verður í Borgarnesi í lok ágúst og þjónustumiðstöð UMFÍ.
Nokkrar myndir frá þingi HSH