Fara á efnissvæði
05. ágúst 2019

HSÞ hlaut Fyrirmyndarbikar UMFÍ

Héraðssamband Þingeyinga (HSÞ) hlaut Fyrirmyndarbikar UMFÍ í gærkvöldi. Hefð er fyrir því við slit Unglingalandsmóts UMFÍ að veita bikarinn þeim sambandsaðila UMFÍ sem sýnt hefur verið til fyrirmyndar. 

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, sagði í ávarpi sínu við slit mótsins að þátttakendur og mótsgestir frá HSÞ hafi verið til fyrirmyndar á mótinu, bæði innan sem utan vallar, þar á meðal foreldrar þátttakenda. Þeir hafi auk þess sýnt jákvæða hvatningu og gengið vel um tjaldsvæði mótsgesta.

Gunnhildur Hinriksdóttir, framkvæmdastjóri HSÞ, tók við Fyrirmyndarbikarnum fyrir hönd sambandsins. Það er Íþróttanefnd ríkisins sem gefur bikarinn.

Hér að ofan má sjá þrjá þátttakendur frá HSÞ hampa stoltir bikarnum.

Við slit Unglingalandsmóts UMFÍ þakkaði Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður Ungmennasambandsins Úlfljóts, þátttakendum mótsins fyrir komu og sérstaklega öllum þeim sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóg á mótinu sem fram fór á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina. Eftir að þjóðsöngurinn var spilaður og þátttakendum þakkað fyrir komuna var flugeldum skotið á loft. 

 

Hér að neðan má sjá Hauk Valtýsson og Gunnhildi Hinriksdóttur taka við Fyrirmyndarbikarnum.