Hulda á Þórshöfn: Gaman hvað margir tóku þátt í Hreyfivikunni
„Þetta var ótrúlega gaman. Ég bjóst við að litlir skólar úti á landi hefðu færri tækifæri en aðrir stærri og átti þess vegna alls ekki von á að við myndum vinna,“ segir Hulda Kristín Baldursdóttir, íþróttakennari við Grunnskóla Þórshafnar. Skólinn bar sigur úr býtum í Hreyfiviku UMFÍ sem stóð yfir í lok maí. Skólinn skráði 17 viðburði í vikunni og náði að virkja bæði nemendur og starfsfólk alla vikuna.
„Þetta var ótrúlega gaman. Ég var líka mjög ánægð með hvað margir kennarar og nemendur tóku þáttu í brenniboltanum og öllum hinum viðburðunum hér á Þórshöfn. En ég bjóst við að litlir skólar úti á landi hefðu færri tækifæri en aðrir stærri og átti þess vegna alls ekki von á að við myndum vinna,“ segir Hulda Kristín Baldursdóttir, íþróttakennari við Grunnskóla Þórshafnar. Skólinn bar sigur úr býtum í Hreyfiviku UMFÍ sem stóð yfir í lok maí. Skólinn skráði 17 viðburði í vikunni og náði að virkja bæði nemendur og starfsfólk alla vikuna.
Allir með í skemmtilegri hreyfingu
Hulda var boðberi í Hreyfiviku UMFÍ á Þórshöfn. Ein af nýjungunum í Hreyfiviku UMFÍ þetta árið var brenniboltaáskorun sem fólst í því að kennarar grunnskóla landsins voru hvattir til að bjóða nemendum í brennibolta og auka framboð á skemmtilegri hreyfingu.
Hulda segir nemendur skólans ætla að taka þátt í skólakeppninni á næsta ári enda stemningin fyrir henni góð, sérstaklega núna.
Sá skóli sem myndi skrá flesta viðburði átti þess kost að vinna 100.000 króna ávísun. Henni fylgdi að gefa skal vinninginn áfram til góðgerðarfélags. Tveir aðrir skóla voru dregnir út og áttu þess kost að vinna 50.000 krónur til að gefa góðgerðarfélagi.
Fellaskóli í Reykjavík og Grundaskóli á Akranesi voru dregnir út og hljóta þeir verðlaunin.
Vala Úlfljótsdóttir, íþróttakennari við Fellaskóla, segir einkar gaman að fá verðlaunin og tilkynnti hún það samstarfsfólki sínu undir eins og hún fékk þær.
Áslaug Ákadóttir, íþróttakennari í Grundaskóla, sagði sömuleiðis frábært að fá verðlaunin.
„Það borgar sig alltaf að taka þátt í Hreyfivikunni,“ segir hún.
Brenniboltaáskorun UMFÍ og Kristals
Brenniboltaáskorunin var samstarf UMFÍ og Kristals. Þegar skólastarf hefst á ný í haust munu fulltrúar UMFÍ og Ölgerðarinnar heimsækja skólana sem unnu og afhenda vinningsupphæðina. Þá verður líka kunngjört hvaða góðgerðarfélögum nemendurnir ætla að ánafna verðlaunafénu.
Þangað til þá – minnum við á að allar vikur eru Hreyfivikur!
Fleiri myndir úr Hreyfivikunni á Þórshöfn