Fara á efnissvæði
21. ágúst 2022

Hundahlaupið markar tímamót

„Hér er mikill áhugi á Hundahlaupinu enda geta allir hundar tekið þá í því með eigendum sínum,‟ segir dýrahjúkrunarfræðingurinn og sjúkraþjálfarinn Kolbrún Arna Sigurðardóttir. Hún stóð vaktina með samstarfskonum sínum, þeim Sibbu og Ernu í tjaldi Non-stop dogwear á norrænu NKU-hundasýningunni sem fram hefur farið á Víðistaðatúni í Hafnarfirði um helgina. 

Hundasýningin er gríðarstór enda skráðir meira en 1.000 hundar með um tvö þúsund þátttakendum.

Í tjaldinu kynntu þær líka Hundahlaup UMFÍ og Non-stop dogwear sem fram fer á Seltjarnarnesi fimmtudaginn 25. ágúst næstkomandi.

 

 

Þær Kolla, Sibba og Erna, sem vinna á Dýraspítalanum í Garðabæ og hlaupa með hundum sínum, eru hæstánægðar með Hundahlaupið og eru afar spenntar fyrir því. Hlaupið markar tímamót því Hundahlaupið er fyrsti viðburðurinn þar sem hundaeigendur og íþróttahreyfingin snúa bökum saman með nýstárlegum hætti.

Þær stilltu sér upp með Husky-hundunum fimm sem allir heita fuglanöfnum. Þetta eru hundarnir Kráka, Krummi, Kría, Rjúpa og Kjarri.

 

Fólk og hundar hlaupa saman

Hundahlaup UMFÍ og Non-Stop Dogwear er ein þeirra greina sem boðið er upp á í Íþróttaveislu UMFÍ sem fram fer í fyrsta sinn í sumar. Hundahlaupið er unnið í samstarfi við ungmennafélagið Gróttu á Seltjarnarnesi.

Skráning í Hundahlaupið er í fullum gangi.

Í boði eru tvær hlaupaleiðir. Annar vegar 5 km tímataka og hins vegar 2 km leið fyrir þá sem vilja fara rólega með hundinn í göngutúr. Á keppnissvæðinu á Seltjarnarnesi verða tjaldbúðir með veitingum og vörusölu. Hlaupið verður þvi um leið hittingur hundaáhugafólks sem hefur gaman af því að sýna sig og sjá aðra og taka þátt í einstökum viðburði.

Hundahlaupið er fyrir alla, hlaupara og röltara, göngufólk, gönguhunda, hlaupahunda og fólk og hunda af öllum stærðum sem hafa gaman af því að hreyfa sig.

Skráning í Hundahlaupið fer fram á hlaup.is og er hægt að skrá sig og hundana til þátttöku fram að hlaupi.

Smelltu hér til að skrá þig