Hvað get ég gert?
Ofbeldi, áreitni og önnur ósæmileg hegðun á ekki að lýðast innan ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar.
Margar leiðir eru til fyrir þá sem vilja leita sér hjálpar ef þeir hafa orðið fyrir ofbeldi eða vita um ofbeldisverk. Undir það sem telst til áæskilegrar og ámælisverðrar háttsemi er athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað endurtekið andlegt og líkamlegt ofbeldi fellur undir þetta.
UMFÍ áréttar að samkvæmt Æskulýðslögum er óheimilt að ráða einstaklinga til starfa sem hafa hlotið refsidóma vegna ofbeldisbrota, ávana- og fíkniefna eða kynferðisbrota. Æskilegt er að allir þeir sem starfa með börnum og ungmennum skili inn samþykkt fyrir því að þeirra aðildarfélag hafi heimild til að sækja upplýsingar úr sakaskrá. Sambandsaðilar UMFÍ og aðildarfélög þeirra geta haft samband við þjónustumiðstöð UMFÍ og leitað eftir því að UMFÍ fái sakavottorð þeirra sem sækja um störf hjá viðkomandi félagi. Aðildarfélög nokkurra sambandsaðila hafa þegar nýtt sér þennan möguleika.
Æskulýðsvettvangurinn
UMFÍ er aðili að Æskulýðsvettvanginum ásamt Bandalagi íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Hlutverk Æskulýðsvettvangsins er að standa vörð um hagsmuni barna og ungmenna og stuðla að heilbrigðum, uppbyggjandi og vönduðum aðstæðum í æskulýðsstarfi.
Æskulýðsvettvangurinn líður ekki ofbeldi af neinu tagi innan síns starfs og telur mjög mikilvægt að sá grundvallarréttur að fá að vera óáreittur sé virtur.
Aðgerðaáætlun Æskulýðsvettvangsins
Á vegum Æskulýðsvettvangsins starfar fagráð sem tekur á öllum þeim málum sem talin hafa verið upp innan aðildarfélaganna og ekki hefur tekist að leysa innan þeirra. Fagráðið er skipað að minnsta kosti tveimur óháðum einstaklingum sem hafa þekkingu, menntun og reynslu til að vinna með málið.
Þolandi eða forráðamenn þolanda geta jafnframt vísað máli til fagráðs. Tilvísun máls til fagráðs skal vera skrifleg, á þar til gerðu eyðublaði, og skal senda hana á netfangið fagrad@aev.is ásamt fylgigögnum, þar á meðal upplýsingum um fyrri vinnslu.
Fagráðið sér um að þú fáir þann stuðning sem þú þarft á að halda og leiðbeinir þér um næstu skref.
Heimasíða Æskulýðsvettvangsins
Yfirlýsing UMFÍ vegna brota á íþróttakonum