Fara á efnissvæði
10. september 2018

Hvaða breytingum kallar ungt fólk eftir í starfi íþrótta- og ungmennafélaga?

UMFÍ hefur á undanförnum misserum staðið fyrir þremur svokölluðum umræðupartýum. Markmið viðburðanna var að koma fólki saman, bæði þeim sem stýra og stjórna innan ungmennafélagshreyfingarinnar og ungu fólki sem starfið er hugsað fyrir. Viðburðirnir fóru fram í þjónustumiðstöð UMFÍ í Reykjavík og í félagsheimilunum Hvoli á Hvolsvelli og Logalandi í Reykholtsdal í Borgarfirði.

Samtals mættu um 300 þátttakendur í umræðupartýin, bæði stjórnendur og ungt fólk á aldrinum 13–30 ára. UMFÍ þakkar Evrópu unga fólksins (EUF) fyrir veittan  stuðning við viðburðina.

Ein af þeim breytingum sem ungmenni kalla eftir í starfi íþrótta- og ungmennafélaga er starfsemi fyrir ungmenni á aldrinum 17–30 ára sem hvorki hafa áhuga á afreksmennsku né því að komast langt, keppa og sigra – þau sem aðeins vilja vera með. Fram kom í umræðupartýunum að þessi hópur upplifir sig svolítið út undan þar sem oftar en ekki er rík áhersla lögð á keppni, afrek og mætingaskyldu.

Ungmennin kalla eftir starfi þar sem áhersla er lögð á þátttöku og félagslegan  ávinning, starf eða hóp þar sem hægt er að mæta, hafa gaman og hreyfa sig í góðra vina hópi. Einnig kom fram að mörg ungmenni sækjast frekar eftir félagslega   þættinum og félagslegri virkni heldur en árangri. Mörgum ungmennum finnst hins vegar eins og dæmið hafi snúist við, það er að árangur og íþróttin sjálf sé  undirstaðan en félagslegi þátturinn aukaafurð af því. Þessi upplifun hefur fælingarmátt ef og þegar geta og áhugi á íþrótt eða árangri minnkar hjá  þátttakendum.

Þetta leiddi af sér þá hugmynd að auka möguleika á dómaranámskeiðum fyrir fólk sem hefur æft ákveðnar íþróttir í einhvern tíma en hefur ekki áhuga á að keppa í þeim heldur vill halda utan um starfið og vera þátttakendur í félagi sínu.

 

Fyrirmyndir á afrekssviðinu

Jafnframt kom fram í umræðupartýunum að mörgum ungmennum finnst margar fyrir leiðtogar einblíni ofmikið á afreksfærni. Það geti leitttil þess að ungmenni leiðist út á vafasamar brautir til að mæta aukinni pressu. Það geti svo skilað sér í ofþjálfun og notkun á fæðubótarefnum án viðunandi þekkingar á aðferðum og innihaldsefnum.

Skýr ósk kom fram í umræðupartýunum um mikilvægi þess að finna fyrirmyndir sem eru nær ungmennunum. Ekki eigi að horfa aðeins upp til íþróttastjarna í fremstu röð, á borð við knattspyrnukappann Gylfa Sigurðsson, heldur líka til leikmanna  í meistaraflokki eða eldri flokkum sem ungmenni þekkja og hafa tækifæri til þess að hitta í íþróttahúsum félaga sinna.

 

Ungmennafélög stofni ungmennaráð

Í umræðupartýunum kom fram nokkuð mótsagnakennd afstaða

til þeirra félaga sem ungmennin eiga aðild að. Þeim finnast félögin nefnilega bæði bæði vera nútímaleg og gamaldags. Mörg félög nýta sér samfélagsmiðla til þess að koma upplýsingum á framfæri.

Aftur á móti má ekki gleyma því að oft reynist sú gamla aðferð vel að fara og hitta fólk í eigin persónu. Það er viðbót við það að nota samfélagsmiðla til að koma upplýsingum á framfæri.

Lítið er um að ungt fólk sitji í stjórnum eða nefndum félaga og því er hætta á því að félögum takist ekki að koma fyllilega til móts við ungmennin. Þetta veldur því að raddir ungmenna heyrist ekki á þeim stað þar sem hún á að heyrast. Til viðbótar upplifa ungmenni mjög takmarkað aðgengi að stjórnum félaganna í sumum tilfellum. Að  auki upplifa ungmenni athafnir stjórnanna sem nokkurs konar foreldra- og/eða afa- og ömmustarf.

Sum ungmenni upplifa sig aðeins sem neytendur félaga en ekki sem þátttakendur. Ungmenni greiða æfingagjöld sem þeim finnast oft á tíðum há. Það getur leitt til þess að iðkendur sjá ekki ástæðu til að leggja meira á sig fyrir félög sín.

Ein hugmynd, sem kom fram í umræðupartýunum, var að stofna ungmennaráð innan hvers ungmennafélags. Ráðið verður að hafa skýran tilgang og hlutverk, vera málsvari ungs fólks og vera sá aðili sem tekur að sér að kynna starf viðkomandi félags fyrir öðru ungu fólki til þess að auka þátttöku unga fólksins innan þess.

 

Besta leiðin til að ná til ungs fólks

Í umræðupartýunum komu eðlilega upp vangaveltur um það hvernig best og  árangursríkast væri að koma fræðslu og upplýsingum á framfæri við ungmenni.

 

UMFÍ vinnur með ýmsum hætti með ungu fólki. Þar á meðal er ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði haldin einu sinni á ári. Á ráðstefnunni er lögð áhersla á að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks í leik og starfi. Þar er lögð áhersla á að einstaklingar geti styrkt sjálfsmynd sína og tekið upplýstar ákvarðanir um eigið líf og lífsstíl. Ráðstefnan hefur verið haldin árlega frá árinu 2009 og hefur því fest sig í sessi á meðal mikilvægustu viðburða fyrir ungt fólk á Íslandi. Ráðstefnan er ætluð ungu fólki á aldrinum 16 – 25 ára.

Meira um Ungt fólk og lýðræði

Greinin hér að ofan er hluti úr lengri grein í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Hægt er að lesa blaðið allt á vefsíðunni www.umfi.is.

Smelltu hér til að lesa Skinfaxa