Hvar verða mótin árið 2026?
Mikið er um að vera hjá UMFÍ nú í sumar. En við horfum fram í tímann. Nú gefst sambandsaðilum UMFÍ og sveitarfélögum tækifæri til að setjast yfir plön til næstu tveggja ára og skoða hvort þau vilji og geti haldið bæði Unglingalandsmót UMFÍ og Landsmót UMFÍ 50+ árið 2026.
Ætlarðu að halda Unglingalandsmót UMFÍ?
Sambandsaðilar UMFÍ geta nú sótt um að halda Unglingalandsmót UMFÍ um verslunarmannahelgina 2026.
Frestur til að skila inn umsóknum er til 1. október 2024.
Unglingalandsmót UMFÍ er umfangsmikil íþrótta- og fjölskylduhátíð sem haldin er um verslunarmannahelgina ár hvert.
Mótið var haldið í fyrsta sinn á Dalvík árið 1992 og hefur síðan þá vaxið og dafnað síðan þá. Frá árinu 2004 hafa mótin verið haldin á hverju ári. Næsta mót verður í Borgarnesi um verslunarmannahelgina og á Egilsstöðum á næsta ári.
Gera þarf ráð fyrir um 1.000 – 1.500 þátttakendum, 5.000 mótsgestum, tjaldsvæðum sem ræður við fjöldann, fjölda viðburða og tónlistaratriðum á hverju kvöldi auk miklum fjölda sjálfboðaliða yfir þessa stóru ferðahelgi.
Framkvæmd mótsins verður í höndum UMFÍ, þeim sambandsaðila sem tekur mótið að sér og viðkomandi sveitafélagi.
Athygli er vakin á því að stuðningur viðkomandi sveitarfélags þarf að fylgja umsókninni.
Umsóknum skal skilað til þjónustumiðstöðvar UMFÍ á netfangið umfi@umfi.is. Nánari upplýsingar má fá í síma 568-2929.
Hvar verður Landsmót UMFÍ 50+?
Sambandsaðilar UMFÍ hafa nú kost á því að sækja um að halda Landsmót UMFÍ 50+ árið 2026. Frestur til að skila inn umsóknum er til 1. október 2024.
Mótið er sérstaklega ætlað einstaklingum 50 ára og eldri. Útfærsla mótsins er í höndum móta- og viðburðanefndar UMFÍ og framkvæmdanefndar mótsins hverju sinni.
Framkvæmd mótsins verður í höndum UMFÍ, þeim sambandsaðila sem tekur mótið að sér og viðkomandi sveitafélagi.
Athygli er vakin á því að stuðningur viðkomandi sveitarfélags þarf að fylgja umsókninni.
Vinsælar greinar mótsins eru eru boccía, golf, pútt, frjálsar íþróttir, ringó, bridds og ýmsar fleiri.
Umsóknum skal skilað til þjónustumiðstöðvar UMFÍ á netfangið umfi@umfi.is. Nánari upplýsingar má fá í síma 568-2929.