Hvernig getur keppnisfyrirkomulag mótað eða eyðilagt karakter?
Laugardaginn 5. október fer fjórða Sýnum karakter ráðstefna UMFÍ og ÍSÍ fram. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Hvernig getur keppnisfyrirkomulag mótað eða eyðilagt karakter? Dagskráin er fjölbreytt og margt áhugaverðra erinda fyrir alla sem hafa áhuga á íþróttum. Flutt verða erindi sem tengjast breyttu keppnisfyrirkomulagi og því hvernig hægt er að virkja og byggja upp karakter hjá börnum og ungmennum.
Ráðstefnan fer fram í Háskólanum í Reykjavík og stendur hún frá kl. 09:30 – 12:30. Verð er 2.500kr.
Starfsfólk og sjálfboðaliðar innan íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar er hvatt til að mæta. Vert er að geta þess að uppselt hefur verið á allar fyrri ráðstefnur Sýnum karakter til þessa.
Á ráðstefnunni mun m.a. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður og móðir sundkappans Hjalta Geirs Guðmundssonar ræða um mikilvægi íþrótta fatlaðra fyrir sjálfsmyndina. Hjalti Geir var á meðal íslensku keppendanna á heimsleikunum Special Olympics, sem fram fóru í Abú Dabí í mars á þessu ári.
Á meðal annarra sem flytja erindi á ráðstefnunni eru dr. Viðar Halldórsson, hugmyndasmiður Sýnum karakter, Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Fimleikasambands Íslands, Arnar Bill Gunnarsson, fræðslustjóri KSÍ, Sveinn Þorgeirsson, aðjúnkt á íþróttasviði HR, og Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB). Hann ætlar að ræða um það hvernig UMSB er að innleiða verkfærakistu í starfsemi UMSB.
Smelltu hér til þess að kynna þér dagskrá ráðstefnunnar.
Smelltu hér til þess að skoða viðburðinn á facebook.
Smelltu hér til þess að tryggja þér miða.