Hvernig skrái ég í lið? En hvað ef barnið mitt er ekki í liði?
Skráning á Unglingalandsmót UMFÍ á Höfn í Hornafirði er nú í fullum gangi og er hægt að skrá þátttakendur til miðnættis 29. júlí næstkomandi. Skráningar ganga afar vel og má búast við gífurlegum fjölda á mótið í sól og sælu á Höfn um verslunarmannahelgina.
Mótið er fyrir 11 – 18 ára og þurfa þátttakendur hvorki að vera í ungmenna- né íþróttafélagi til að taka þátt í mótinu. Ekki er heldur nauðsynlegt að vera í liði til að taka þátt í liðakeppnum. Ef viðkomandi er ekki í liði er þátttakandi settur í lið með jafningjum sínum.
Nokkrar spurningar hafa vaknað hjá þeim sem eru ýmist að skrá börn sín eða sjálfa sig á á Unglingalandsmótið. Hér eru helstu spurningarnar og svör við þeim.
Er hægt að skrá þátttakanda á mótið og velja greinar án þess að greiða þátttökugjaldið?
- Svar: Nei. Greiða þarf þátttökugjaldið til að geta valið greinar. Smella þarf á skráning í boði til að greiða gjaldið. Þegar því er lokið er hægt að velja greinar.
Getur einn skráð marga í liði til keppni í einu?
- Svar: Nei, það er ekki hægt. Fararstjórar og þjálfarar eða fulltrúar liða gátu áður fyrr skráð heilu liðin til keppni. Breyting á Persónuverndarlögum valda því að slíkt er ekki lengur hægt. Nú getur aðeins einstaklingur eða forráðamaður skráð eigin börn og ungmenni á mótið. Þetta þýðir að foreldrar geta aðeins skráð sín eigin börn en ekki vini barnanna.
Get ég séð hverjir eru saman í liði á Unglingalandsmótinu?
- Svar: Nei, það er ekki hægt.
Hvernig vel ég lið á Unglingalandsmótinu?
- Svar: Við skráningu í liðagreinar á mótinu er gluggi þar sem skrifa á nafn liðsins. Mikilvægt er að hafa nafn liðsins á hreinu og að allir skrifi það með svipuðum hætti. Nöfn liða á Unglingalandsmótum UMFÍ eru oft með skrautlegra móti. Á meðal þeirra sem notuð hafa verið eru Prinsessurnar, Krullurnar hans Kalla, Skúnkarnir og Prumpandi einhyrningar. Eins og sjá má á myndunum hér að neðan gera margir eigin búninga og hafa þeir sumir verið með skrautlegra móti. Þessi frábæru nöfn liðanna birtum við svo á heimasíðunum umfi.is og ulm.is þegar skráningu lýkur.
Þátttakandi er ekki í liði. Hvað geri ég þá?
- Svar: Við skráningu í liðagreinar er gluggi þar sem skrifa á nafn liðs. Ef þátttakandi er ekki í liði á að skrifa annað hvort „Vantar lið“ eða „Ekki í liði“. Þátttakandi er síðan settur í lið með fleirum í sínum aldurs- og kynjaflokki sem ekki eru í liði.
Þið finnið allar upplýsingarnar um Unglingalandsmót UMFÍ á www.ulm.is
Hér má sjá nokkrar skemmtilegar myndir frá fyrri mótum.