Hvert á að leita vegna kynferðislegs áreitis og misnotkunar í íþróttafélagi?
Flóðgáttir hafa opnast á samfélagsmiðlum í tengslum við mikla opinbera umræðu um kynferðislega áreitni og misnotkun undir myllumerkinu #metoo.
Íþróttafólk er á meðal þeirra sem hafa stigið fram og greint frá kynferðislegum níðingsskap og ofbeldi. Þar á meðal eru fimleikastjörnurnar McKayla Maroney og Tatiana Gutsu.
McKayla Maroney greindi frá því í vikunni að læknir bandaríska landsliðsins í fimleikum hafi beitt sig ofbeldi í áraraðir. Fjölmargar aðrar ásakanir hafa komið fram gegn lækninum. Þá sakar Tatiana Gutsu frá Úkraínu Hvít-Rússann Vitaly Scherbo um að hafa nauðgað sér á alþjóðlegu móti árið 1991. Hún var þá 15 ára en Scherbo 19 ára. Gutsu segir aðra keppendur hafa vitað af ofbeldinu en brugðist sér og ekki sagt frá því. Gutsu lagði fimleika á hilluna óvænt árið 1992 og flutti til Bandaríkjanna en þar býr hún enn.
Opinberanir sem þessar eru því miður fjarri því nýjar af nálinni. Skemmst er að minnast brotamálum sem komu upp á yfirborðið í knattspyrnu í Bretlandi síðla árs 2016.
Vertu fyrirmynd
Starfsfólk og sjálfboðaliðar sem starfa með börnum og ungmennum eiga að vera fyrirmyndir, gæta vandvirkni og samviskusemi og koma fram af umhyggju, heiðarleika og virðingu gagnvart öllum þeim sem starfað er með.
En hvað á að gera og hvernig er hægt að bregðast við?
Hafðu samband
UMFÍ er aðili að Æskulýðsvettvangnum. Á vegum hans starfar fagráð sem tekur til umfjöllunar kynferðisbrotamál og eineltismál sem koma upp innan aðildarfélaga ÆV. Fagráðið er skipað sérfræðingum og tekur við öllum tilkynningum um kynferðisbrot sem koma upp í starfi aðildarfélaganna og heldur utan um skráningu þeirra. Fagráðið sér til þess að tilkynningunum sé komið í réttan farveg og að þær fái viðhlítandi málsmeðferð samkvæmt verklagsreglum fagráðs og landslögum. Jafnframt leiðbeinir fagráðið þolendum um málsmeðferð og sér til þess að þeir fái stuðning eftir því sem við á hverju sinni.
Tilkynnt til fagráðs
Hafir þú orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, einelti eða annarri óæskilegri hegðun innan aðildarfélaga Æskulýðsvettvangsins býðst þér að hafa samband við fagráðið í gegnum netfangið fagrad@aeskulydsvettvangurinn.is.
Fagráðið sér um að þú fáir þann stuðning sem þú þarft á að halda og leiðbeinir þér um næstu skref.