Fara á efnissvæði
10. febrúar 2020

Hvetur fólk til að taka þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ

Undirbúningur fyrir Unglingalandsmót UMFÍ um verslunarmannahelgina 2020 er í fullum gangi á Selfossi. Boðið verður upp á þátttöku í 24 greinum, metnaðarfullri dagskrá á daginn og tónlekum á kvöldum með ýmsum öðrum skemmtilegheitum fyrir alla fjölskylduna. Gert er ráð fyrir miklum fjölda keppenda yfir mótshelgina og að fjölmargir nýti sér tjaldsvæðin í bænum.

Þórir Haraldsson, formaður framkvæmdanefndar Unglingalandsmótsins, skrifaði grein í Dagskránna á Suðurlandi í síðustu viku. Þar hvetur hann Selfyssinga og aðra sunnlendinga til að taka þátt með einum eða öðrum hætti, bæði sem sjálfboðaliðar við undirbúninginn og framkvæmd mótsins.  

Ætla má að rúmlega þúsund þátttakendur á aldrinum 11-18 ára taki beinan þátt í greinum mótsins og að bærinn fyllist af fjölskyldum um verslunarmannahelgina 2020 sem ætlar að skemmta sér saman langt fram á kvöld.

Opnað verður fyrir skráningu á Unglingalandsmót UMFÍ sem fyrr 1. júlí og verður hægt að skrá sig fram að móti. Mjög algengt er að þátttakendur skrái sig í nokkrar greinar á mótinu. Vinsælt er líka orðið að búa til sérstaka liðsbúninga og gefa þeim sérstakt heiti.

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Selfossi um verslunarmannahelgina í sumar, dagana 30. júlí – 2. ágúst. HSK sér um framkvæmd mótsins í samstarfi við UMFÍ og Sveitarfélagið Árborg.

Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð sem allir 11-18 ára geta keppt á en einnig eru verðug verkefni fyrir bæði yngri börn sem og fullorðna.  Keppnisgreinarnar eru 24 talsins að þessu sinni. Mótið er fjölskyldu- og íþróttahátíð því einnig er boðið upp á tónleika á kvöldin og metnaðarfulla dagskrá fyrir alla mótsgesti.

 

Heimasíða Unglingalandsmótsins: www.ulm.is

Myndir frá síðasta Unglingalandsmót UMFÍ á Höfn í Hornafirði