Fara á efnissvæði
03. september 2020

Hvetur háskólanema til að sækja um í Íþróttasjóð

„Það er draumur minn að íþróttanefnd ríkisins styðji enn betur við grasrótarstarf íþróttahreyfingarinnar en áður. Fræðslustarf og rannsóknir eru að mínu mati besti stuðningurinn við allt starfið. Það er stefna okkar að efla þann þátt í úthlutunum Íþróttasjóðs og styðja við fleiri verkefni,“ segir Soffía Ámundadóttir, formaður íþróttanefndar ríkisins, sem hefur umsjón með Íþróttasjóði og úthlutar úr honum.

Nú er búið að opna fyrir umsóknir í Íþróttasjóð og er frestur til að senda inn umsókn til 1. október.

 

 

Styrkirnir eru ætlaðir íþrótta- og ungmennafélögum á landinu til að bæta aðstöðu til íþróttaiðkana. Einnig eru styrkir til útbreiðslu- og fræðsluverkefna, að þessu sinni verður horft sérstaklega til verkefna sem stuðla að jafnrétti í íþróttum. Þá eru veittir styrkir til að stunda rannsóknir á ýmsum þáttum íþróttastarfsemi í landinu.

Málaflokkarnir eru þrír og eru sem hér segir:

  1.  Sérstök verkefni íþróttafélaga og samtaka þeirra sem miða að því að bæta aðstöðu til íþróttaiðkana.
  2. Útbreiðsla- og fræðsluverkefni og skal einkum lögð áhersla á verkefni sem uppfylla einhver eftirfarinna skilyrða;

    1. Stuðla að nýsköpun og eflingu íþróttastarfs fyrir börn og unglinga og sérstök áhersla verður að þessu sinni á verkefni sem stuðla að jafnrétti í íþróttum.
    2. Eflingu þekkingu þjálfara og leiðbeinenda í íþróttastarfi
    3. Auka gildi íþróttastarfs í forvörnum.
    4. Auka veg og virðingu íþróttastarfs í samfélaginu.
  3. Íþróttarannsóknir.

 

Hefur óskað eftir hærra framlagi

Soffía segir þá breytingu á sjóðnum nú og því sem áður var að fjármunum í sjóðinn verður skipt jafn niður á málaflokkana þrjá.

„Það hafa alltaf fáar umsóknir komið um styrki vegna rannsókna. Ég hvet því kennara og meistaranema í háskólum til að sækja um rannsóknastyrki,“ heldur Soffía áfram.

Soffía segir gríðarlega þörf fyrir styrki úr Íþróttasjóði enda margt að gerast í grasrótinni. Í síðustu úthlutun hafði sjóðurinn yfir 19 milljónum króna að ráða til fjölda verkefna. Soffía hefur óskað eftir því að framlagið verði hækkað í ár og á von á að verulega verði bætt í hann áður en umsóknarfrestur líður.

 

Meira um Íþróttasjóð og styrkumsókn

Rætt er við Soffíu um Íþróttasjóð í síðasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Viðtalið allt má nálgast með því að smella á hlekkinn og lesa blaðið:

Lesa Skinfaxa