Fara á efnissvæði
05. nóvember 2022

Hvetur öll félög til að nýta sér samræmda viðbragðsáætlun

„Við erum að stuðla að bættu öryggi, erum að vinna gegn ofbeldi og mismunun og erum að sýna ábyrgð okkar gagnvart samfélaginu. Þessi sameiginlega áætlun gerir það að verkum að öll félög geta notið leiðsagnar og stuðnings í glímunni við þau mál sem koma upp,‟ segir Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs.

Hún kynnti formlega á föstudag samræmda viðbragðsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf. Markmið viðbragðsáætlunarinnar er að vera leiðbeinandi og styðja við íþrótta- og æskulýðsstarf. Upp geta komið krefjandi aðstæður og erfið mál og stundum veit fólk ekki hvernig á að bregðast við. Samræmda viðbragðsáætlunin eyðir þeim vafa.

Viðstödd kynninguna voru fulltrúar þeirra félaga sem komu að gerð viðbragðsáætlunarinnar, Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, sérfræðingar ráðuneytisins ásamt þeim Lárusi Blöndal, forseta ÍSÍ, skátahöfðingjanum Hörpu Rós Valgeirsdóttur og Jóhanni Steinari Ingimundarsyni, formanni UMFÍ.

Þú getur smellt hér til að lesa áætlunina: 

Viðbragðsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf

Þú getur líka smellt á myndina hér að neðan, náð í hlekkinn og sett hann á vefsíðu félags þíns.

Ein áætlun fyrir öll félög og flest mál

„Þessi áætlun telur til flestra þeirra atvika sem við teljum að geti komið upp í íþrótta- og æskulýðsstarfi,‟ sagði Sigurbjörg og taldi upp sem dæmi handleggsbrot á æfingu, barnaverndartilkynningu sem þurfi að senda út, kynferðisbrot eða annað sem getur komið upp í starfi íþrótta- og æskulýðsfélaga.

„Þarna eru leiðbeiningar sem leiða félögin áfram. Stuðningur við það er svo hjá samskiptaráðgjafa,‟ bætti Sigurbjörg við og hvatti forráðafólk í öllum íþrótta og æskulýðsfélögum landsins til að sækja viðbragðsáætlunina, birta hana á heimasíðum sínum eða setja hlekki á miðla.

„Ekki síst þarf að kynna hana fyrir sínu starfsfólki, stjórnum, sjálfboðaliðum, þátttakendum og forsjáraðilum og bara öllum sem þetta við kemur.“

 

Samskiptaráðgjafinn er einstakur

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, var viðstaddur kynninguna og afhenti Sigurbjörg honum fyrsta eintak áætlunarinnar með formlegum hætti. 

Ásmundur óskaði íþrótta- og æskulýðshreyfingunni til hamingju með verkið og sagði hana tæki sem muni þjóna vel öllum þeim sem vinna með börnum og ungmennum. Hann ræddi jafnframt um embætti samskiptaráðgjafa sem sett var á laggirnar árið 2020.

„Þegar það fór af stað veltu menn fyrir sér hvaða áhrif það myndi hafa, hver þau yrðu og hvort embættið myndi virka. En ég held að óhætt sé að fullyrða að eftir þennan stutta starfstíma þá er þetta ótrúlega vel heppnað. Það er einstakt á heimsvísu,‟ sagði hann og benti á að í síðustu viku hafi hann fundað með ráðherrum íþróttamála hjá Evrópuráðinu. Þar hafi hann sagt frá starfi samskiptaráðgjafa og það vakið mikla athygli.

„Við erum á undan bylgjunni. Það er umræða í fleiri löndum um það hvað skuli gera. En þau eru ekki komin eins langt og við,‟ sagði hann.

 

Ragnheiður er fulltrúi UMFÍ

Sigurbjörg sagði mikla vinnu hafa farið í gerð viðbragðsáætlunarinnar og stór vinnuhópur lagt mikið af mörkum. Þá hafi sérfræðingar lesið yfir þá hluta sem snúi að þeim, svo sem fulltrúi Neyðarlínunnar lesið í þaula þann hluta samræmdu viðbragðsáætlunarinnar sem fjallar um slys.

Í vinnuhópnum voru fulltrúar frá Bandalagi íslenskra skáta (BÍS), Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR), Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ), Kristilegu félagi ungra manna og kvenna (KFUM og K), Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) og Æskulýðsvettvanginum (ÆV). Ragnheiður Sigurðardóttir var fulltrúi UMFÍ í vinnuhópnum.

 

Myndir frá kynningunni