Fara á efnissvæði
10. nóvember 2021

Hvetur skólahópa til að fara í sýnatöku

„Við viljum hafa allan vara á í skugga COVID-smita í samfélaginu og mælumst þess vegna til þess að allir skólahópar fari í sýnatöku daginn áður en þeir koma til okkar á Laugarvatn,“ segir Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Ungmennabúða UMFÍ á Laugarvatni.

UMFÍ hefur starfrækt ungmennabúðir fyrir nemendur í 9. bekkjum grunnskóla um árabil og hafa nemendur frá næstum öllum skólum landsins komið þangað í vikudvöl. Í ungmennabúðunum njóta njóta nemendurnir dvalarinnar frá mánudegi til föstudags en markmið hennar er að styrkja félagsfærni ungmenna, efla vitund þeirra fyrir umhverfi sínu og hvetja þau til þess að hafa heilbrigðan lífsstíl að leiðarljósi. Ungmennin eru mikið úti, fara út á kajaka ef viðrar og eiga í samskiptum án  síma- og snjalltækja.

Sigurður segir að í skugga fjölgunar COVID-smita hafi áhyggjufullir foreldrar barna sem hyggja á dvöl í búðunum haft samband og spurt um sóttvarnir á meðan dvöl skólahópa stendur.

„Við hvetjum að sjálfsögðu til aukinna persónulegra sóttvarna hjá okkur eins og annars staðar í samfélaginu. Við mælumst enn fremur til þess að allir fari í sýnatöku daginn áður en komið er hingað til þess að lágmarka áhættuna á smiti á meðan dvölinni stendur. Við erum svo með mjög skýra verkferla ef upp kemur grunur um smit,“ segir Sigurður, forstöðumaður Ungmennabúða UMFÍ.

 

Alla upplýsingar um Ungmennabúðir UMFÍ á www.ungmennabudir.is