Fara á efnissvæði
02. september 2024

ÍBR fagnaði 80 ára afmæli með glæsilegum hætti

„Íþróttafélögin vinna að því af miklum krafti að efla og auka þátttöku ungmenna í starfi íþróttafélaganna. Við þurfum að finna leiðir til að ná fleirum inn í það,“ segir Ingvar Sverrisson, formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR), í ávarpi sem hann hélt í tilefni af 80 ára afmæli bandalagsins. 

Fjölmennt var í afmælisveislunni sem haldin var í húsakynnum Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) í Laugardal. Á meðal gesta var margt forvarsfólk í íþróttahreyfingunni auk Einars Þorsteinssonar borgarstjóra.

Ingvar sagði fjölgunina brýna í breyttum heimi.

„við vitum hversu öflugir einstaklingar koma út úr því að hafa verið í starfi innan íþróttahreyfingarinnar og það er okkar ábyrgð að efla það enn frekar,“ sagði Ingvar og kom auk þess inn á áskoranir í afreksstarfi og mikilvægi þess að styðja vel við bak þeirra sem stýra afreksmálum.

Ingvar sagði ÍBR og flesta sem að bandalaginu koma vera stolt af því að vera Fyrirmyndarhérað. Lárus Blöndal, forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), og Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri sambandsins, voru báðir viðstaddir afmælið. Báðir fluttu þeir stuttu tölu og afhentu Ingvari síðan góða gjöf.

 

Tímamót hjá ÍBR og sambandsaðilum

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, afhenti Ingvari blómagjöf í tilefni dagsins. Hún sagði sannarlega tilefni til að gleðjast, því að um mánaðamótin á undan hafi ÍBR fengið úthlutað lottógreiðslum í fyrsta sinn sem sambandsaðili UMFÍ. Tæp fimm ár eru síðan aðildarumsókn ÍBR að UMFÍ var samþykkt. Á sama tíma fengu tvö önnur íþróttabandalög aðild að UMFÍ. Það eru Íþróttabandalag Akraness (ÍA) og Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA).

Frá því þetta var hafa fleiri íþróttabandalög fengið aðild samþykkt að UMFÍ. Þar á meðal Íþróttabandalag Hafnarfjarðar (ÍBH), Íþróttabandalag Reykjanesbæjar (ÍRB) og Íþróttabandalag Suðurnesja (ÍS).

 

Dó í hlaupinu

Margt var gert í tilefni afmælisdagsins, sem var tvöfaldur svo að segja, enda fagnaði Reykjavíkurmaraþonið líka 40 ára afmæli.

Knútur Óskarsson, formaður Reykjavíkurmaraþonsins um árabil, steig líka í pontu í tilefni stórafmælis hlaupsins og sagði það ætíð hafa verið laust við óhöpp. Hlaupið hafi verið farsælt sökum þess að góður hópur sjálfboðaliða og annað fólk hafi valist til að vinna við það.

Engu að síður rifjaði Knútur upp þegar maður lést við Ægissíðu í skemmtiskokki Reykjavíkurmaraþonsins.  Hann benti reyndar á að sonur mannsins hafi verið góður kunningi sinn. Hann hafi sagt föður sinn varla hafa getað fengið betra andlát enda verið að gera það sem hann unni.

 

HVERJIR VORU HVAR

Hér að neðan má sjá myndir frá afmælinu auk mynda úr skemmtilegri sögugöngu sem sagnfræðingurinn Stefán Pálsson stýrði. Stefán sagði frá mörgum skemmtilegum pælingum úr sögu íþróttamála í Reykjavík á árum áður, svo sem hugmyndum um viðamikla uppbyggingu mannvirkja í Nauthólsvík fyrir öll íþróttafélögin í Reykjavík.