Íbúafjöldi Þorlákshafnar margfaldast um verslunarmannahelgina
Heljarinnar fjör verður í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina þegar Unglingalandsmót UMFÍ fer þar fram. Þátttakendur eru á annað þúsund á mótum UMFÍ og má búast við að mannfjöldi í bænum verði frá því að vera fjórfalt meiri en venjulegt er og jafnvel meira.
Í Þorlákshöfn búa 1.644 manns samkvæmt nýjustu tölum. Þátttakendur og aðrir gestir Unglingalandsmóts UMFÍ eru gjarnan á milli 5 – 10.000 talsins og verður bærinn vægast sagt fullur af fjörugu fólki.
Keppnissvæði við tjaldsvæðið
Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ, segir að þrátt fyrir mikinn mannfjölda í bænum þá þurfi ekki að grípa til sérstakra aðgerða á borð við lokunar gatna nema rétt þegar keppt verður í götuhjólreiðum.
„Keppnissvæðið á Unglingalandsmótinu er að langmestu leyti í kringum íþróttamiðstöðina og íþróttasvæðið í bænum. Tjaldsvæðið, sem hefur verið stækkað mikið til að taka við öllum gestum mótsins, er í námunda við keppnissvæðið. Mjög stutt er frá tjaldsvæði að keppnissvæði og tekur smástund að ganga á milli. Göngustígur er á milli svæðanna og því þurfa gestir mótsins varla að hreyfa bíl alla helgina,“ segir Ómar.
Allt er klárt í bænum fyrir mótið. Búið er að græja strandblakvelli og folfvelli.
Unglingalandsmót UMFÍ hefur sýnt sig og sannað að hún er ein af helstu fjölskylduhátíðum sumarsins. Þar geta þátttakendur valið úr yfir 20 ólíkum keppnisgreinum eins og bogfimi, fimleikalífi, fótbolta, frisbígolfi, frjálsum íþróttum, glímu, golfi, götuhjólreiðum, hestaíþróttum, íþróttum fatlaðra, kökuskreytingum, körfubolta, motocross, sandkastalagerð, skák, skotfimi, stafsetningu, strandblaki, strandhandbolta, sundi og upplestri. Nýjustu greinarnar eru dorgveiði og sankastalagerð. Boðið var upp á keppni í kökuskreytingum í fyrsta sinn á Unglingalandsmótinu á Egilsstöðum í fyrra og sló hún algjörlega í gegn.
Á Unglingalandsmótinu verður nóg í boði fyrir alla fjölskylduna alla helgina. Íþróttir eru í boði á daginn fleira skemmtilegt. Á kvöldin eru kvöldvökur með flottasta tónlistarfólki landsins.
Skráning á Unglingalandsmótið er í fullum gangi og er hægt að skrá á mótið til mánudagsins 30. júlí. Allar upplýsingar um mótið og skráning á það er á www.ulm.is.