Fara á efnissvæði
16. júlí 2021

Ingibjörg pílukaststjóri: Allir geta keppt í pílukasti

Pílukast er ein af vinsælustu nýju greinunum í íslenskum íþróttaheimi og fjölgar bæði iðkendum og áhorfendum í keppnum eins og gorkúlum á góðum degi. Auðvitað verður boðið upp á pílukast á Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fer á Selfossi um verslunarmannahelgina.

En hver er galdurinn við keppni í pílukasti?  

Því svarar Ingibjörg Magnúsdóttir er sérgreinarstjóri í pílukasti á Unglingalandsmótinu á Selfossi.

„Það er enginn galdur við það að taka þátt í pílukasti. Pílukast er fyrir alla og allir geta verið með. Við verðum líka með standa sem hægt er að stilla eftir hæð hvers og eins svo fólk í hjólastólum getur tekið þátt,“ segir hún.

Leikurinn er einfaldur og skemmtilegur og byrjendur boðnir sérstaklega velkomnir.

 

 

Keppnisfyrirkomulagið

Skipulag keppni í pílukasti er með þessum hætti.

Skipt er eftir kynjum 11-19 ára.

Keppendur fá að kasta þrisvar sinnum þremur pílum, í heildina níu pílur. 

Markmiðið er að skora sem flest stig, hægt er að reyna eins oft og maður vill, á hvaða tíma sem er föstudag milli 12 og 18.

Á staðnum verður sérstakt kennslu- og æfingaspjald fyrir þátttakendur sem vilja prófa eða hita sig upp áður en tekið er þátt í keppninni.

 

Hver er þín grein?

Þú finnur allar greinarnar á vefsíðunni www.ulm.is. Þar er keppnisfyrirkomulagi þeirra allra lýst í þaula.

Skoða meira um greinarnar

 

Þetta eru greinarnar:

Biathlon (hlaupaskotfimi), bogfimi, borðtennis, fimleikalíf, frisbígolf, frjálsar íþróttir, glíma, golf, götuhjólreiðar, hestaíþróttir, íþróttir fatlaðra, knattspyrna, kökuskreytingar, körfubolti, mótokross, pílukast, rafíþróttir, skák, stafsetning, strandblak, strandhandbolti, sund, taekwondo og upplestur.