Ingvar hjá ÍBR: Við höfum áhyggjur af brottfalli úr íþróttum
„Við hjá ÍBR höfum verulegar áhyggjur af ástandinu. Staðan hefur verið mjög erfið hjá íþróttafélögum á höfuðborgarsvæðinu og veturinn verður mjög erfiður. Þess vegna er mikilvægt að við stöndum saman,“ segir Ingvar Sverrisson, formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR).
Ingvar var á meðal gesta á sambandsráðsfundi UMFÍ. Þar var kynnt Minnisblað UMFÍ um áhrif kórónuveirufaraldursins á íþróttastarf, staða greind og teknar saman tillögur að aðgerðum til framtíðar. Tilgangurinn með minnisblaðinu var að taka saman stutt yfirlit um áhrifin og umræðuna innan ungmennafélagshreyfingarinnar. Áhyggjur og áskoranir stjórnenda og starfsmanna félaganna eru miklar og fjölbreyttar um allt land.
Í Minnisblaðinu má sjá að iðkendum í hópi barna og ungmenna hefur fækkað á árinu miðað við síðastliðin tvö ár. Ingvar hefur áhyggjur af stöðunni ef gripið verður áfram til harkalegri aðgerða til að stemma stigu við útbreiðslu COVID-smita.
Hann tekur líka undir að merkja megi vísbendingar um aukið brottfall úr skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.
„Við sjáum að brottfall er að aukast, sérstaklega í einstaklingsgreinum, greinum sem eru dýrari en aðrar, þar á meðal í fimleikum, dansi og bardagaíþróttum. Við heyrum frá sumum deildum íþróttafélaga í Reykjavík dæmi um fólk sem hefur skráð börn sín í tiltekna grein í haust en viðkomandi hafi síðan ekki fengið þá þjónustu sem hann vænti. Fram að þessu
hafa ekki margir krafist endurgreiðslu æfingagjalda. Hætt er við, ef æfingar verða ekki í boði mikið lengur, að líkur á því aukist. Ég hef í stuttu máli áhyggjur af því að brottfall úr skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi muni aukast verulega við áframhaldandi takmarkanir á starfinu. Íþróttahreyfingin hefur í mörgum tilfellum staðið sig mjög vel í að tala við fólk, koma á æfingum og fleira í þeim dúr. En við þurfum að velta því alvarlega fyrir okkur hvernig framhaldið verður. Íþróttahreyfingin
og skipulagða starfið innan hennar er alveg jafnmikilvægt og skólinn og því þarf að tvinna þetta saman,“ segir Ingvar.
Ingvar leggur til að skólayfirvöld eða einstakir skólar geri samninga við íþróttafélögin í hverfi sínu eða nærsamfélagi og þjálfi börnin í meira mæli á skólatíma. Ekki aðeins til að halda þeim á hreyfingu heldur líka til að halda að þeim gildi skipulagðs íþrótta- og æskulýðsstarfs.
„Ég veit ekki hvaða hlutfall er rétt. En það þarf að tryggja að börn festist ekki í hreyfingarleysi. Það getur orðið mjög hættulegt ef við verðum lengi í þessu ástandi. Við verðum að tryggja að börnin verði áfram í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi þegar ástandinu lýkur.“
Viðtalið við Ingvar birtist í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ.