Ingvar og Lilja sæmd Gullmerki UMFÍ

Ingvar Sverrisson, formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR), og Lilja Sigurðardóttir, varaformaður ÍBR, voru sæmd Gullmerki UMFÍ á þingi bandalagsins á fimmtudag í síðustu viku.
Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ og Guðmundur G. Sigurbergsson, gjaldkeri stjórnar UMFÍ, voru gestir þingsins og flutti Guðmundur ávarp fyrir hönd UMFÍ. Þeir afhentu þeim Ingvari og Lilju gullmerkin.
Þingið tókst mjög vel og sóttu það 55 fulltrúar frá 19 íþróttafélögum innan bandalagsins og tóku þátt í að móta stefnu komandi ára.
Sigríður Jónsdóttir var þingforseti og Steinn Halldórsson var til vara.
Benedikt Ófeigsson og Brynjar Jóhannesson gáfu ekki kost á sér áfram í stjórn ÍBR og var þeim þakkað fyrir samfylgdina og vel unnin störf undanfarin ár. Nýir einstaklingar komu í þeirra stað. Það voru þau Jón Karl Ólafsson og Vanda Sigurgeirsdóttir.
Jón Karl var í fimmtán ár formaður aðalstjórnar ungmennafélagsins Fjölnis í Grafarvogi, sem var með beina aðild að UMFÍ þar til ÍBR fékk aðild að UMFÍ árið 2019. Nokkrum dögum fyrir þing ÍBR var hann gerður að heiðursforseta Fjölnis fyrir störf sín fyrir félagið og er hann sá þriðji sem hlýtur slíkan heiður. Hann var á sama tíma sæmdur Gullmerki UMFÍ.
Guðmundur L. Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Fjölnis, og Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, formaður Fjölnis, fengu starfsmerki UMFÍ.






