Fara á efnissvæði
28. apríl 2021

Íris á Hólmavík: Frábært að ráða námsmenn í sumar

„Þetta úrræði er algjör snilld og mér finnst átakið alveg frábært. Ég setti mig strax í spor námsmanna sem vilja þjálfa hvar sem er á landinu og öðlast reynslu,“ segir Íris Björg Guðbjartsdóttir, formaður Ungmennafélagsins Geislans á Hólmavík. Félagið er aðildarfélag Héraðssambands Strandamanna (HSS).

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, ákvað í vor að verja um 2.200 milljónum króna úr Atvinnuleysistryggingasjóði til að standa straum af átaksverkefni sem ætlað er að fjölga tímabundið störfum fyrir allt að 2.500 námsmenn í sumar. Vinnumálastofnun stýrir átakinu og hefur hvatt félagasamtök, þar á meðal íþróttafélög, til að nýta sér úrræðið en hægt er að ráða námsmenn í samræmi við skilgreiningar verkefnisins í tvo og hálfan mánuð í sumar.

Námsmannaúrræðið kemur til viðbótar við átaksverkefnið Hefjum störf sem ætlað er að fækka fólki í atvinnuleit.

Ungmennafélagið  Geislinn býður upp á íþróttaæfingar og stendur fyrir námskeiðum fyrir börn yfir sumartímann. Íris Björg segir námskeiðin tilvalin fyrir námsmennina en ekki síður þá, sem hafi bakgrunn í íþróttum.

„Við auglýstum eftir þjálfurum og erum búin að fá heimafólk til starfa. Við sjáum fyrir okkur að ráða til okkar námsmenn sem eru áhugasamir og geta hjálpað okkur að halda úti æfingum á dagtíma fyrir  börnin í tvo mánuði í sumar. Það væri algjör snilld,“ segir Íris, formaður Ungmennafélagsins Geislans.

 

Meira um átaksverkefnið og ferlið hvernig á að bera sig að við ráðningu á námsmönnum í sumar á www.umfi.is.