Fara á efnissvæði
02. ágúst 2017

Íris fyrst til að ná í mótsgögnin

Íris Ósk Ívarsdóttir, sem er 11 ára íþróttastelpa í Ungmenna- og íþróttasambandi Austurlands (UÍA) mætti fyrst allra þegar forskráning fyrir félaga UÍA opnaði klukkan 15:00 í Egilsstaðaskóla á Egilsstöðum í dag. Mótaskráningin opnaði formlega fyrir alla aðra gesti klukkan 18. Erla Gunnlaugsdóttir, starfsmaður UÍA, tók á móti skráningu Írisar og afhenti henni treyju merkta UÍA sem félagið gefur iðkendum UÍA af sínu sambandssvæði.

Unglingalandsmót UMFÍ verður á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Afhending mótsgagna fer fram í Egilsstaðaskóla í nágrenni Vilhjálmsvallar. Allt er tilbúið fyrir mótsgesti í Egilsstaðaskóla. Þar er jafnframt upplýsingamiðstöð fyrir mótið og aðstaða fyrir starfsfólks mótsins og þá fjölmörgu sjálfboðaliða sem vinna á Unglingalandsmótinu.