Fara á efnissvæði
02. maí 2019

Íslendingar eru fyrirmyndir Dana þegar kemur að minni drykkju og bættri lýðheilsu

UMFÍ og Íslendingar almennt hafa í gegnum tíðina sótt mikið í smiðju Dana. En oft getur það verið á hinn bóginn. Sveitarstjórnarfólk og starfsmenn frá bæjarfélaginu Herning á Jótlandi heimsótti þjónustumiðstöð UMFÍ í dag. Danirnir eru staddir hér á landi að kynna sér starf íþrótta- og ungmennafélaga en líka forvarnarstarf og markmið UMFÍ og Íslendinga í lýðheilsumálum.

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, fræddi gestina um verkefni og áherslur UMFÍ. Skemmtilegar umræður spunnust um Unglingalandsmót UMFÍ, Landsmótin og samsetningu íþróttastarfsins innan UMFÍ.

Dönsku gestirnir spurðu margs, sérstaklega um það hvernig Íslendingum hefur tekist að draga úr áfengisneyslu og notkun tóbaks. Danir eru jafnframt að skoða kosti frístundakorta í íþróttastarfi og ýmislegt fleira, sem þeir telja til fyrirmyndar hér á landi. 

Þetta er annað skiptið á innan við mánuði sem danskt sveitarstjórnarfólk kemur í heimsókn í þjónustumiðstöð UMFÍ til að fræðast um ungmennafélagshreyfinguna og árangur landsmanna í forvarnarmálum. Um miðjan apríl komu gestir í sömu erindagjörðum frá bæjarfélaginu Haderslev á Suður-Jótlandi.

 

Sjá: Danir kynna sér góðan árangur Íslendinga í forvarnarmálum