Fara á efnissvæði
23. apríl 2021

Íslensk getspá greiðir 200 milljónir vegna góðrar afkomu

Sumarið byrjar afar vel. Góð afkoma Íslenskrar getspár skilar því að stjórn félagsins hefur ákveðið að greiða aukalega til eignaraðila sinna 200 milljónir króna.

UMFÍ á 13,33% hlut í Íslenskri getspá og falla því rúmlega 26,6 milljónir króna til ungmennafélagshreyfingarinnar. Afgangurinn fer til ÍSÍ, sem á 46,67% hlut í Íslenskri getspá, og ÖBÍ, sem á 40% hlut.

Á stjórnarfundi UMFÍ á föstudag í síðustu viku var svo ákveðið að greiða féð sem UMFÍ fær til sambandsaðila UMFÍ.

Þetta er önnur stóra aukagreiðslan frá Íslenskri getspá sem greidd er út á innan við ári. Í fyrrahaust greiddi fyrirtækið eigendum sínum 300 milljónir króna. Það sem féll UMFÍ í skaut var greitt út til sambandsaðila UMFÍ. Þar af er 21 íþróttahérað og sex ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 450 félög innan UMFÍ, með rúmlega 270 þúsund félagsmenn.

Ljóst er að gríðarlega miklu máli skiptir fyrir íþróttalíf á Íslandi að kaupa lottó og styðja með því móti við íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna um allt land.