Fara á efnissvæði
19. janúar 2019

Íþrótta- og ungmennafélög í Kópavogi saman yfir súrmat og sviðakjömmum

UMSK bauð nýverið stjórnendum úr forystusveit aðildarfélaga til Manchester í Bretlandi til að kynna sér íþrótta- og tómstundastarfið í borginni. Sameiginlegar ferðir auka samstarf félaganna. Næsta stóra verkefnið er þorrablótið sem haldið verður í þessum mánuði.

„Sumum finnst undarlegt hversu vel félögin eru að vinna saman. En auðvitað er það til hagsbóta fyrir alla að gera það. Við getum verið andstæðingar inni á vellinum en þess utan er samstarf af hinu góða að mínu mati,“ segir Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri ungmennafélagsins Breiðabliks í Kópavogi.

Félagið hefur tekið upp aukið samstarf við önnur ungmennafélög í bæjarfélaginu sem eru aðildarfélög Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK).

 

Sameinast á þorrablóti

„Samstarf félaganna er af ýmsum toga. Stærsta verkefnið fram undan er sameiginlegt þorrablót íþróttafélaganna í Kópavogi. Allir miðarnir sem voru í boði á Kópavogsblótið seldust upp á innan við 10 klukkustundum. Til stóð að byrja á því að halda þorrablótið í Smáranum í Kópavogi en salurinn hjá okkur var upptekinn og því var ákveðið að byrja með það í íþróttamiðstöðinni í Kórnum. Það er mjög mikil stemning fyrir þessu og eftirspurnin mikil enda er þorrablótsnefndin komin með biðlista á blótið,” segir Eysteinn og bætir við að nýverið hafi félögin bundist höndum saman um að halda þorrablót næstu þrjú árin hið minnsta. Hann býst við heilmiklu fjöri og segir lítið mál fyrir Breiðablik að halda þorrablót með fleiri félögum.“

 

Kynntust á ferðalagi

Eysteinn segir meiri hag í samstarfi heldur en að hvert félag vinni í sínu horni, jafnvel í samkeppni við aðra. Það má í raun segja að aukið samstarf milli félaganna í Kópavogi hafi meðal annars orðið til eftir tvær frábærar ferðir sem farnar voru á vegum UMFÍ og UMSK.

Sumarið 2017 fór lykilfólk í stjórnum sambandsaðila UMFÍ og aðildarfélaga þeirra til Álaborgar í Danmörku til að kynna sér landsmót DGI. Fyrr á árinu fékk svo UMSK styrk frá Erasmus-áætlun ESB til að bjóða forsvarsfólki aðildarfélaga til Manchester í Bretlandi, til að kynna sér íþrótta- og tómstundastarf þar í borg ásamt því að heimsækja samtökin Streetgames. Ferðin varð upphafið að verkefni sem hefur þau markmið að draga úr brottfalli, auka virkni og þátttöku í starfi og auka framboð á skemmtilegum verkefnum fyrir alla aldurshópa.

„Það er ekkert launungarmál að samgangur félaganna hefur orðið til þess að fólk innan félaganna fór að kynnast betur. Ferðirnar juku auðvitað víðsýni og maður lærir alltaf af því að sjá hvað aðrir eru að gera. En stóri plúsinn er sá að í ferðum tengjast stjórnendur íþróttafélaganna betur. Samskiptin verða líka betri og allt öðruvísi þegar fólk hefur kynnst hvert öðru. Þær hafa leitt til samræðna og samvinnu. Við áttuðum okkur auðvitað á því að við erum með fullt af fólki, foreldrum sem eiga börn í nokkrum félögum í Kópavogi. Það er til hagsbóta fyrir alla að vinna saman. Þótt við séum ekki í sama liði stefnum við öll að sama markmiði fyrir íbúa sveitarfélagsins og iðkendur,” segir Eysteinn.

 

Sameinast um frístundavagn

Kópavogsblótið er ekki eina merkið um samstarf félaganna í Kópavogi, það er Breiðabliks, HK og Gerplu. Þessi félög hafa einnig, ásamt Kópavogsbæ og SÍK (Samstarfsvettvangi íþróttafélaganna í Kópavogi), sameinast um frístundavagn fyrir iðkendur félaganna. Vagnarnir fara á milli frístundarheimila í bænum og eru fyrst og fremst ætlaðir fyrir yngstu iðkendurnar. Ekki skiptir máli hvort iðkandi er í Breiðabliki, HK eða Gerplu. Einn vagn er fyrir alla.

Eysteinn segir breytinguna vera til hagsbóta fyrir iðkendur og foreldra þeirra: „Það er glórulaust að hvert félag í sínu horni sé að reka frístundavagn og koma börnum á æfingar. Við vorum að gera þetta í sitthvoru lagi í fyrra þar sem iðkendur þurftu að vera í “rétta” búningnum til þess að komast í sinn vagn sem voru svo röng skilaboð. Sérstaklega í ljósi þess að margir af okkar iðkendum æfa einnig aðrar íþróttagreinar með HK og Gerplu. Að mínu mati dregur einn frístundavagn úr þessum ríg á milli iðkenda sem við vorum kannski ómeðvitað að ýta undir með því að keyra hver í sínum vagni.”

Í samvinnu félaganna felst hagræðing fyrir flesta. „Við viljum reyna að minnka skutlið hjá foreldrum og einfalda hlutina eins og kostur er og það gerist best með því að félögin vinni saman. Við erum meira að segja farin að ræða saman um fleiri verkefni sem við sjáum ávinning í að vinna sameiginlega að,” segir Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks.

 

Greinin birtist í síðasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þetta er 4. tbl. ársins 2018. Blaðið allt er hægt að nálgast hér:

Skinfaxi 4. tbl. 2018