Fara á efnissvæði
29. nóvember 2022

Íþróttabandalag Hafnarfjarðar komið inn í UMFÍ

„Ég fagna þessu skrefi og trúi því og treysti að samvinna muni aukast innan íþróttahreyfingarinnar,“ segir Hrafnkell Marinósson, formaður Íþróttabandalags Hafnarfjarðar (ÍBH), í kjölfar þeirra tímamóta sem urðu á fimmtudag í síðustu viku þegar stjórn UMFÍ samþykkti aðild ÍBH að UMFÍ.

Undir það tekur Elísabet Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ÍBH, sem ásamt Hrafnkatli leiddi umsóknarferlið fyrir hönd Hafnfirðinga.

 

Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, segir fjölgun í ungmennafélagshreyfingunni mikið gleðiefni. „Við bindum miklar vonir við að nú skapist enn frekari tækifæri til að efla samvinnu og þekkingarmiðlun innan hreyfingarinnar,“ segir hann.

 

 

Yfirleitt eru nýir sambandsaðilar samþykktir á þingum UMFÍ. Á 52. sambandsþingi UMFÍ, sem haldið var á Húsavík árið 2021, var stjórn veitt heimild til þess að samþykkja aðild íþróttahéraða á milli þinga. ÍBH varð þar með fjórða íþróttabandalagið til að bætast við í UMFÍ. Þrjú bandalög eru þar fyrir; Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR), Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA) og Íþróttabandalag Akraness (ÍA). 

Öll fengu þau aðild að UMFÍ á sambandsþingsi UMFÍ haustið 2019.

 

Nærri öll íþróttafélög landsins innan UMFÍ

Með inngöngu ÍBH eru nú öll íþrótta- og ungmennafélög á höfuðborgarsvæðinu innan UMFÍ. Innan ÍBH eru skráðar um 15.000 iðkanir (sumir einstaklingar æfa fleiri en eina grein) hjá 25 aðildarfélögum í Hafnarfirði undir merkjum ÍBH. Innan ÍBH eru félög eins og FH, Haukar, Sundfélag Hafnarfjarðar, Kvartmíluklúbburinn, Badmintonfélag Hafnarfjarðar, golfklúbbar, hestamannafélög,  og mörg fleiri.

Sambandsaðilar UMFÍ eru nú 27 talsins sem skiptast í 22 íþróttahéruð og 5 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru því nú rúmlega 480 félög innan UMFÍ og enn fleiri einstaka deildir og ráð.

 

 

Heimasíða Íþróttabandalags Hafnarfjarðar