Fara á efnissvæði
04. maí 2021

Íþróttafélag Bíldælinga vaknar úr dvala

„Við erum að rétta úr kútnum eftir COVID og reksturinn í þokkalegum málum,“ segir Páll Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Héraðssambandsins Hrafna-Flóka. Héraðsþing sambandsins fór fram 21. apríl síðastliðinn. Páll segir þingið hafa verið fámennt en góðmennt. Sökum samkomutakmarkana var það bæði haldið á Birkimel á Barðaströnd og með fjarfundarbúnaði. Þinginu var jafnframt streymt á Facebook. Af þeim sökum var ekki eins mikið um umræður og á hefðbundnum þingum.

Á þinginu var Margrét Brynjólfsdóttir endurkjörin formaður. Önnur í stjórn Hrafna-Flóka eru Marion Worthmann og Sveinn Jóhann Þórðarson ásamt þeim Kristrúnu Guðjónsdóttur, Heiðari Jóhannssyni og Ólafi Byron Kristjánssyni.

Páll segir helstu fréttirnar úr starfi sambandsins þá að Íþróttafélag Bíldælinga sé að komast á skrið á nýjan leik eftir nokkurra ára hlé og sé þar stefnt á öflugt starf í vetur.