Íþróttafélag fyrir fólk sem hefur gaman af því að hreyfa sig og hitta aðra
„Ég er mjög þakklátur fyrir þennan mikla heiður sem er til marks um að maður sé að gera eitthvað rétt,” segir Algirdas Slapikas, formaður íþróttafélagsins Stál-úlfs.
Félagið á aðild að Ungmennasambandi Kjalarnesþings (UMSK). Á síðasta ársþingi UMSK í vor var Algirdas sæmdur starfsmerki UMFÍ og varð hann einn fyrsti einstaklingurinn af erlendu bergi brotinn til að hljóta slíkt merki.
Íþróttafélagið Stál-úlfur var stofnað í byrjun árs 2010 en að baki því er fólk frá Litháen með brennandi áhuga á íþróttum og æfir í Kópavogi. Algirdas segir forsöguna þá að fyrir stofnun Stál-úlfs hafi Félag Litháa á Íslandi staðið fyrir götuboltamóti. Í það skráðu sig 13 lið og því yfir 50 keppendur.
„Þetta var ótrúlegur fjöldi. Við höfðum því samband við KKÍ og könnuðum hvað við þyrftum að gera til að búa til lið sem gæti tekið þátt í keppni í 2. deild. Þar var tekið vel í pælingarnar og okkur sagt að við þyrftum að stofna félag. Það gerðum við árið 2010 og þá fór boltinn að rúlla,“ segir Algirdas og bætir við að um þetta leyti hafi kona hans, handboltakempan Jolanta Slapikiene, verið að hætta í atvinnumennsku í handbolta. Hún var einmitt ástæða þess að þau hjónin fluttu hingað árið 1998 en Jolanta var markvörður í meistaraflokki kvenna hjá bæði FH og Val um árabil.
„Ég hef stundum grínast með það að þegar konan mín var að ljúka sínum ferli þá var minn að byrja,“ segir Algirdas. „En ég er mikill áhugamaður um alls konar íþróttir, hef gaman af að spila með eldri flokki Stál-úlfs í fótbolta og þjálfa körfuboltaliðið okkar.“
Algirdas segir skrýtna tíma nú um stundir þegar samkomubann veldur því að íþróttastarf fullorðinna liggur að mestu niðri. En Stál-úlfur verður ekki fyrir miklu tapi þótt iðkendum finnist leiðinlegt að geta ekki mætt á æfingu. „Við erum öll sjálfboðaliðar í félaginu og með engan á launaskrá. Þetta er hrein áhugamennska fyrir fólk sem hefur gaman af hreyfingu og sækist eftir félagsskap,“ segir Algirdas Slapikas.
Félag fyrir alla
Stál-úlfi hefur frá upphafi verið ætlað að vera vettvangur fyrir fólk sem hefur áhuga á íþróttum, hvetja til heilbrigðra lífshátta og auðvelda fólki, sem flutt hefur hingað til lands, að aðlagast samfélaginu í gegnum íþróttir. Algirdas leggur áherslu á að félagið sé opið öllum sem vilja ganga í það.
Körfubolti er afar vinsæl grein í Litháen og hafa margir brottfluttir Litháar stofnað körfuboltalið í löndum þar sem þeir búa svo að þau eru fjölmörg í Evrópu og víðar, meira að segja í Ástralíu. Liðin koma svo saman á fjögurra ára fresti í Litháen og keppa sín á milli. Næsta mót verður í Litháen á næsta ári og hafa Stál-úlfsliðar sett stefnuna þangað. „Við förum auðvitað út fyrir Íslands hönd,“ segir hann.
Sterkasta félagið
Nafnið Stál-úlfur byggir á sögu af járnúlfi sem Gediminas, stórhertoga af Litháen, á að hafa dreymt. Sagan segir að Gediminas hafi verið á veiðum í dal á milli fljótanna Neris og Vilniu. Hann lagðist til svefns í helli og dreymdi þá risastóran úlf sem gólaði hátt. Gediminas réð af draumnum að þarna ætti hann að reisa kastala og byggja borg sem yrði ósigrandi eins og járnúlfur. Borgin fékk heitið Vilnius.
„Stál er sterkara en járn og því ákváðum við að láta félagið verða sterkara,“ segir Algirdas.
Greinin birtist í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Nýjasta tölublaðið - 1. tbl. 2020 - er aðgengilegt á vef UMFÍ.
Þú getur smellt hér og lesið allt blaðið: Lesa Skinfaxa