Íþróttafélög geta nýtt hlutagreiðslur
„Íþrótta- og ungmennafélög gegna veigamiklu hlutverki í íslensku samfélagi. Í ljósi mikilla áhrifa COVID-19 á starfsemi þeirra þá var í mínum huga nauðsynlegt að þessi lög næðu til þeirra,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Starfsmenn og verktakar íþróttafélaga og frjálsra félagasamtaka eiga rétt til hlutagreiðslu samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda, samkvæmt frumvarpi sem Ásmundur Einar lagði fram í síðustu viku og var samþykkt á föstudag.
Miðað við það geta starfsmenn íþróttafélaga, þjálfarar og aðrir á launaskrá viðkomandi félags sótt um hlutagreiðslur komi til skerts starfshlutfalls. Gert er ráð fyrir að þær geti numið frá 20-75% skerðingu á móti starfshlutfalli starfsmanna. Komi til skerðingar þarf starfsmaður að semja við yfirmann sinn og sækja að því loknu um greiðslur vegna minna starfshlutfalls.
Frumvarpið í stuttu máli:
- Hlutagreiðslur greiddar samhliða allt að 75% minna starfshlutfalli.
- Laun frá vinnuveitanda og greiðslu bóta samanlagt geta aldrei numið hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns.
- Miðað er við meðaltal launa síðustu þriggja mánaða áður en launamaður missti starf sitt að hluta.
- Þak á samanlagðar bætur og laun nema 700.000 krónum.
- Einstaklingur með 400.000 krónur í launa eða minna á mánuði getur fengið greitt 100% launa sinna.
- Gildistími frumvarpsins er frá 15. mars 2020 til 31. maí 2020.
Hvernig sæki ég um?
Á vefsíðu Vinnumálastofnunar eru gagnlegar leiðbeiningar og upplýsingar um það hvernig starfsfólk íþróttafélaga og frjálsra félagasamtaka sækir um hlutagreiðslur vegna skerts starfshlutfalls.
- Félagið þarf að byrja á að semja við starfsfólk sitt um lækkað starfshlutfall.
- Viðkomandi starfsmaður fer síðan inn á vefsíðu Vinnumálastofnunar. Þar skal smella á upplýsingaboxið „Upplýsingar vegna COVID-19“. Þar undir eru helstu upplýsingar um minnkað starfshlutfall, greiðslur í sóttkví og spurt og og svarað um COVID-19.
Athugið að launamenn geta ekki sótt um greiðslur vegna minnkaðs starfshlutfalls strax þar sem umsóknarformið er ekki tilbúið.
Vinnumálastofnun vinnur að uppsetningu stafrænnar umsóknar um minnkað starfshlutfall launamanns sem verður aðgengileg notendum á mínum síðum mjög fljótlega. Tilkynnt verður um það á vefsíðu Vinnumálastofnunar á næstu dögum hvenær launamenn geta byrjað að fylla út umsóknir.
Launamaður sem þarf að minnka við sig um starfshlutfall mun eingöngu þurfa að skila inn umsókn þar að lútandi til Vinnumálastofnunar. Atvinnurekandi skilar svo inn staðfestingu á breyttu starfshlutfalli og áætlun um mánaðartekjur launamanns. Frekari gögn mun ekki þurfa.
Hvernig skilar atvinnurekandi inn nauðsynlegum gögnum?
Launamenn og atvinnurekendur munu þurfa að skila inn umsókn og nauðsynlegum upplýsingum í gegnum mínar síður á vef Vinnumálastofnunnar. Bæði umsókn launamanns og staðfesting atvinnurekenda eru ekki aðgengilegar á mínum síðum en væntanlegt fljótlega.
Vinnumálastofnun beinir þeim tilmælum til atvinnurekenda að verða sér úti um íslykil eða rafræn skilríki fyrir atvinnurekstur sinn, en öllum gögnum varðandi minnkað starfshlutfall ber að skila inn í gegnum mínar síður hjá Vinnumálastofnun með rafrænu auðkenni. Upplýsingar um hvernig atvinnurekandi getur nálgast Íslykil eða rafræn skilríki fyrir sinn atvinnurekstur má nálgast hér: https://vefur.island.is/islykill/ og https://www.skilriki.is.