Fara á efnissvæði
06. janúar 2022

Íþróttafólk kennir réttu tökin í eldhúsinu

Íþróttafólk hefur um fáar leiðir að velja þegar það vill fræðast um réttu næringuna. Knattspyrnukonan Elísa Viðarsdóttir segir mikla áherslu hafa verið lagða á líkamlega fræðslu. Nú sé kominn tími á næringuna. Lykillinn að góðum árangri sé í eldhúsinu og hjá íþróttamanninum sjálfum.

Þjóðin þekkir Elísu Viðarsdóttur, landsliðskonuna og fyrirliða Íslandsmeistara Vals í knattspyrnu. Færri vita að Elísa er jafnframt næringarfræðingur og með meistaragráðu í íþróttanæringarfræði og matvælafræði. Hún hefur nú soðið áhugamál sín saman og skrifað fræðslubókina Næringin skapar meistarann, sem öðru fremur fjallar um næringarheim íþróttafólks og veitir ráð um það sem betur má fara. Í bókinni er jafnframt fjöldi uppskrifta fyrir allan daginn.

 

 

Við vinnslu bókarinnar ræddi Elísa við fjöldann allan af íþróttafólki sem eys þar úr viskubrunni sínum. Í bókinni lýsa tólf einstaklingar sem hafa náð langt í grein sinni mataræði sínu og segja frá því hvaða hlutverki næring skiptir í lífi þeirra. Rúmlega tuttugu uppskriftir eru í bókinni allt frá morgunmat til millimála og máltíða fyrir iðkendur á öllum aldri.

Á meðal þeirra sem fjalla um líf sitt og næringu eru knattspyrnukonan Sara Björk Gunnarsdóttir, körfuknattleiksmaðurinn Martin Hermannsson, handboltakonan Lovísa Thompson og margir fleiri.

 

Íþróttafólk kennir réttu tökin

Íþróttafólk veit helling um mataræði. En það er forvitið og vill fá að vita meira, að sögn Elísu, sem talaði við fjölda íþróttafólks, bæði tengslum við meistaraverkefni sitt í næringafræðinni og í aðdraganda bókaskrifanna.

„Íþróttafólk tekur bókinni mjög vel, því flest sem ég talaði við sögðu að þau hefðu viljað geta gluggað í svona bók þegar þau voru yngri. Þekking íþróttafólks á næringu og mataræði liggur víða og fólk þarf að leita sér fanga um rétta matinn og samsetningu hans út um allt. Það veit sumt, þjálfarinn veit eitthvað og svo má lengi telja,“ heldur hún áfram.

„Mataræðið skiptir öllu máli, ekki bara í tengslum við æfingar heldur þarf að borða rétt í aðdraganda mikilvægra viðburða. Það getur jafnvel lengt ferilinn. Þess vegna vill íþróttafólkið sem við töluðum við fá að vita hvað á að kaupa til að elda rétta matinn. Við birtum lista yfir það. En svo getur það verið yfirþyrmandi að sjá uppskriftir með löngum listum af hráefnum. Við miðum því við að hafa fremur einfaldar uppskriftir og hráefnin helst aðeins fimm. Þau geta auðvitað verið fleiri eða færri. En fimm er við miðunartalan í öllum réttunum,“ segir Elísa.

 

Matur fyrir alla iðkendur

Matreiðslubókin er afskaplega fallegur og eigulegur gripur og uppskriftirnar einstaklega heilbrigðar og freistandi. Elísa segir markmiðið að flestir aldurshópar geti notað bókina, meira að segja ungir iðkendur á grunnskólaaldri og líka foreldrar þeirra.

„Leynimarkmið bókarinnar er að hún höfði til allra, iðkenda og áhugafólks um næringu sína og fái fólk til að huga að því hvað það setur ofan í sig. En svo viljum við líka að foreldrar kíki í bókina og fái áhuga á því að börnin þeirra nærist rétt. Ég horfi á bókina sem leiðarvísi sem auðveldar íþróttafólki að velja betur. Þetta er næringarfræði á mannamáli enda algjör óþarfi að flækja hlutina,“ heldur Elísa áfram.

„Það er lítið fjallað um næringu íþróttafólks á einum stað og þess vegna þurfa iðkendur að leita upplýsinga víða. En auðvitað flækir það málið að íþróttafólk þarf mismunandi næringu í samræmi við þær greinar sem það stundar. Íþróttahreyfingin hefur bætt sig verulega þegar kemur að fræðslu um líkamlega þáttinn í íþróttum. En við þurfum líka að leggja meiri áherslu á næringuna,“ heldur hún áfram.

 

 

„Þegar ég var að skrifa meistararitgerðina mína í næringarfræði þarfagreindi ég fræðslu um næringarfræði hjá íþróttafélögum. Þá komst ég að því hvað þörfin er mikil. Það kom mér ekkert sérstaklega á óvart, enda hef ég verið þátttakandi í íþróttaheiminum í mörg ár, bæði hér og erlendis. Það er komin svo mikil vitneskja um flesta þætti. Íþróttafólk veit hvert það á að leita ef það snýr sig á ökkla. En það er erfiðara þegar kemur að réttu næringunni. Því vil ég breyta. Auðvitað hefði ég vel getað skrifað um næringarfræði íþróttafólks með djúpum akademískum hætti. En það er ekki jafn grípandi fyrir áhugasama, þá sem vilja glugga í bókina, fræðast um næringu og jafnvel skella í máltíð. Ég vildi nefnilega miklu frekar skrifa um næringarfræði á mannamáli,“ segir Elísa.

Í bókinni segir fjöldi íþróttafólks frá því hvað er gott að borða fyrir æfingar og leiki, hvað er gott að eiga í ísskápnum og hvernig hægt er að búa til næringarríka máltíð með þeim hráefnum sem til eru á heimilinu.

Með hverri uppskrift í bókinni geta lesendur séð upplýsingar um hlutfall kolvetna, próteins og fitu.

„Ég er ekki að boða breytingu eða átak eða skipa neinum að fara nú að umbylta öllu með nýju mataræði. Þvert á móti vona ég að bókin hjálpi fólki að lifa með freistingunum,“ segir hún.

 

Fræðsla skiptir máli

Elísa sér fjölmarga möguleika á því að fylgja bókinni eftir. Stórt fyrirtæki sem hafi stutt vel við íþróttastarf í sínu bæjarfélagi hafi keypt bókina í heildsölu hjá útgefanda og félagið síðan gefið iðkendum hana.

„Það var alveg frábært enda er þetta mjög góð viðbót við starf yngri flokka. Draumur minn er að börnin og foreldrarnir opni bókina saman og búi til eitthvað gott upp úr henni. Hollt mataræði er líka besta forvörnin og enn betra er að fjölskyldan njóti þess að vera saman í eldhúsinu,“ segir Elísa og bætir við að hún sjái fyrir sér meiri eftirfylgni, svo sem að stjórnendur íþróttafélaga geti haft samband við sig og óskað eftir fyrirlestri um næringu íþróttafólks.

 

Ítarlegar upplýsingar um bókina Næringin skapar meistarann má finna á vefsíðunni www.elisavidars.is

 

Lestu viðtalið í blaðinu! Þar eru líka uppskriftir og meira efni.

Viðtalið og umfjöllun um hlaupahópinn birtist í Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þú getur smellt á blaðið hér að neðan og lesið það allt á umfi.is.