Íþróttahéruð skora á stjórnvöld í skattamálum
Forsvarsfólk íþróttafélaga á höfuðborgarsvæðinu skorar á stjórnvöld að eiga í uppbyggilegu samtali við íþróttafélögin í landinu um starfsumhverfi þeirra og tryggja að rekstrargrundvelli sé ekki kippt undan þeim, með ófyrirséðum afleiðingum fyrir barna- og unglingastarf í landinu sem og íþróttalíf almennt. Íþróttafélögin eiga öll aðild að Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar (ÍBH), Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR) og Ungmennasambandi Kjalarnesþings (UMSK).
Áskorunin var gefin út um helgina eftir fund formanna og framkvæmdastjóra íþróttafélaganna sem íþróttahéruðin boðuðu til undir lok síðustu viku í tilefni af erindi Skattsins til þeirra. Fundurinn var afar vel sóttur en um hundrað fulltrúar íþróttafélaganna sóttu hann.
Íþróttafélög undir smásjá Skattsins
Í erindi Skattsins var upplýst að ríkisskattstjóri hafi orðið þess áskynja að misbrestur sé á skilum íþróttafélaga á staðgreiðslu skatta og tryggingagjaldi. Þar er áréttað að samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda er launagreiðendum, það er þeim sem inna af hendi eða reikna greiðslur sem teljast vera laun, skylt að halda eftir staðgreiðslu opinberra gjalda af launum og öðrum staðgreiðsluskyldum greiðslum, svo og af reiknuðu endurgjaldi vegna eigin vinnu eða sjálfstæðrar starfsemi. Launagreiðanda ber einnig í staðgreiðslu að inna af hendi tryggingagjald af heildarlaunum launamanna sinna á tekjuári og af eigin reiknuðu endurgjaldi. Af hálfu skattyfirvalda hafi legið fyrir um langt skeið og almennt gengið út frá að íþróttamenn sem þiggja einhverjar greiðslur frá íþróttafélagi eða fyrir milligöngu þess teljist í skilningi skattalaga launþegar en ekki verktakar. Almennt séð gilda sömu sjónarmið um þjálfara sem þiggja slíkar greiðslur.
Af þessum sökum hafi ríkisskattstjóri í hyggju að taka til skoðunar í upphafi árs hvernig skilunum sé háttað. Fyrirhugað er að endurtaka skoðun á skattskilum íþróttafélaga með reglubundnum hætti í framtíðinni.
Í bréfi Skattsins til forsvarsfólks íþróttafélaganna er tekið fram að upplýsinga- og greiðsluskylda hvílir á aðalstjórnum félaga og kann vanræksla á þeim skyldum að leiða til refsiábyrgðar.
Fleiri fá greitt fyrir vinnuna
Forsvarsfólk ÍBH, ÍBR og UMSK boðuðu forystufólk aðildarfélaga til fundar á fimmtudag í síðustu viku til að ræða erindið. Þar fór Kári Steinn Reynisson, rekstrarstjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), yfir viðræður skattayfirvalda og ÍSÍ og ræddi málið frá ýmsum hliðum. Miklar umræður sköpuðust um málið.
Í ályktun eftir fund íþróttafélaganna segir að íþróttahreyfingin gegni afar mikilvægu hlutverki í samfélaginu öllu og starfsemi á vegum hennar hefur á undangengnum áratugum hafi aukist mjög mikið. Rekstur félaganna hafi vaxið til að mæta kröfum um aukna þjónustu og fagmennsku. Það feli í sér að hlutverk sjálfboðaliða hefur breyst og stærri hluti starfseminnar sé nú borinn uppi af einstaklingum sem fá greitt fyrir sín verkefni. Starfsumhverfi íþróttahreyfingarinnar sé að mörgu leyti frábrugðið hefðbundnum atvinnurekstri vegna eðlis starfseminnar, hún sé árstíðabundin og um að ræða, að stærstum hluta, auka- og íhlaupastörf sem að verulegu leyti tilkomin vegna barna- og unglingastarfs félaganna. Nauðsynlegt sé að hafa í huga að íþróttafélög, sem halda úti öflugu íþróttastarfi, þurfa að hafa marga einstaklinga til taks til að sinna því starfi vel.
Þetta mikilvæga starf skilji eftir sig stórt og jákvætt samfélagslegt spor í formi forvarna gagnvart heilsu þjóðarinnar líkamlega og andlega.
Í lok ályktunar af fundi íþróttafélaganna segir orðrétt:
„Það er gott að skýra reglur og skerpa á skattalegri framkvæmd en það skiptir öllu máli að mögulegar breytingar á rekstrarumhverfi íþróttafélaga séu unnar í góðu samstarfi við hreyfinguna og tekið sé fullt tillit til hennar sjónarmiða og athugasemda.
Í HEILD SINNI
Erindi skattsins í hnotskurn
Staðgreiðsla skatta og tryggingagjalds vegna greiðslna til íþróttamanna og þjálfara.
Samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda er launagreiðendum, þ.e. þeim sem inna af hendi eða reikna greiðslur sem teljast vera laun, skylt að halda eftir staðgreiðslu opinberra gjalda af launum og öðrum staðgreiðsluskyldum greiðslum, svo og af reiknuðu endurgjaldi vegna eigin vinnu eða sjálfstæðrar starfsemi. Launagreiðanda ber einnig í staðgreiðslu að inna af hendi tryggingagjald af heildarlaunum launamanna sinna á tekjuári og af eigin reiknuðu endurgjaldi.
Af hálfu skattyfirvalda hefur legið fyrir um langt skeið og almennt gengið út frá að íþróttamenn sem þiggja einhverjar greiðslur frá íþróttafélagi eða fyrir milligöngu þess teljist í skilningi skattalaga launþegar en ekki verktakar. Almennt séð gilda sömu sjónarmið um þjálfara sem þiggja slíkar greiðslur.
Ríkisskattstjóri hefur orðið þess áskynja að misbrestur er á skilum íþróttafélaga á staðgreiðslu skatta og tryggingagjaldi. Af þessum sökum hefur ríkisskattstjóri í hyggju að taka til skoðunar í upphafi næsta árs hvernig skilum þessum er háttað. Fyrirhugað er að endurtaka skoðun á skattskilum íþróttafélaga með reglubundnum hætti í framtíðinni. Vonast er til þess að forsvarsmenn íþróttafélaga taki höndum saman með skattyfirvöldum að koma skilum þessum í rétt lag til framtíðar horft.
Tekið skal fram að upplýsinga- og greiðsluskylda hvílir á aðalstjórnum félaga og kann vanræksla á þeim skyldum að leiða til refsiábyrgðar.
Nánari upplýsingar um framangreint er m.a. að finna í leiðbeiningum ríkisskattstjóra um skattskyldu íþróttastarfsemi, sem upphaflega voru gefnar út 2004 en síðast endurútgefnar í febrúar 2024, í góðri samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands.
Ályktun af fundi íþróttafélaganna
Ályktun fundar ÍBH, ÍBR og UMSK með aðildarfélögum sínum um skattamál íþróttafélaga, haldinn 9. janúar 2025.
Íþróttahreyfingin gegnir afar mikilvægu hlutverki í samfélaginu öllu og starfsemi á vegum hennar hefur á undangengnum áratugum aukist mjög mikið. Rekstur íþróttafélaga hefur vaxið að sama skapi til að mæta kröfum um aukna þjónustu og fagmennsku. Það hefur meðal annars falið það í sér að hlutverk sjálfboðaliða hefur breyst og stærri hluti starfseminnar er borinn upp af einstaklingum sem fá greitt fyrir sín verkefni.
Starfsumhverfi íþróttahreyfingarinnar er um margt frábrugðið hefðbundnum atvinnurekstri vegna eðlis starfseminnar, það er hversu árstíðabundin hún er og þeirrar staðreyndar að um er að ræða, að stærstum hluta, auka- og íhlaupastörf sem að verulegu leyti eru tilkomin vegna barna- og unglingastarfs félaganna. Hér er nauðsynlegt að hafa í huga að félög sem halda úti öflugu íþróttastarfi þurfa að hafa mjög marga einstaklinga til taks til að sinna því starfi vel. Þetta mikilvæga starf skilur eftir sig stórt og jákvætt samfélagslegt spor í formi forvarna gagnvart heilsu þjóðarinnar líkamlega og andlega. Það er gott að skýra reglur og skerpa á skattalegri framkvæmd en það skiptir öllu máli að mögulegar breytingar á rekstrarumhverfi íþróttafélaga séu unnar í góðu samstarfi við hreyfinguna og tekið sé fullt tillit til hennar sjónarmiða og athugasemda.
Fundur forsvarsfólks aðildarfélaga ÍBH, ÍBR og UMSK skorar á stjórnvöld að eiga í uppbyggilegu samtali við íþróttafélögin í landinu um starfsumhverfi þeirra og tryggja að rekstrargrundvellinum sé ekki kippt undan þeim, með ófyrirséðum afleiðingum fyrir barna- og unglingastarf í landinu sem og íþróttalíf almennt.