Fara á efnissvæði
07. júní 2024

Íþróttahreyfingin á að búa til tækifæri

„Hlutverk UMFÍ og íþróttahreyfingarinnar allrar er að búa til tækifæri, finna stað og stund svo fólk geti notið þess að hreyfa sig,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ. Hann hélt ávarp við setningu Landsmóts UMFÍ 50+, sem fram fer í Vogum á Vatnsleysuströnd. Þetta er tólfta mót UMFÍ fyrir fimmtíu ára og eldri en fyrsta skiptið sem það er haldið í Vogum. 

Mótið er haldið í samstarfi við Ungmennafélagið Þrótt Vogum og sveitarfélagið Voga. 
Fjölmenni var við setninguna, sem Þróttarinn Gunnar J. Helgason, fyrrverandi formaður félagsins og stjórnarmaður til fjölda ára, stýrði af öryggi og festu. Hann var að sjálfsögðu klæddur appelsínugulum jakkafötum, sem er einkennislitur Þróttar. 

Við setninguna fluttu ávörp auk Jóhanns þau Petra Ruth Rúnarsdóttir, formaður Þróttar, og Birgir Örn Ólafsson, varaforseti bæjarstjórnar Voga. Þau buðu gesti velkomna í Voga. Tónlistarmaðurinn Róbert Andri tók lagið auk þess sem tveir línudanshópar sýndu listir sínar. 

Jóhann Steinar áréttaði mikilvæga stöðu UMFÍ og íþróttahreyfingarinnar í samfélaginu og vitnaði til Guðna Th. Jóhannessonar, verndara ungmennafélagshreyfingarinnar. Guðni hélt ávarp við setningu landsmótsins í Borgarnesi fyrir tveimur árum og sagði þar Íslendinga í vanda stadda. Heilbrigðiskerfið nái ekki utan um alla og því verði landsmenn að grípa til eigin ráða og geti ekki gert það með því að byggja fleiri álmur  og spítala. 
Jóhann sagði stöðuna ekkert hafa breyst á síðastliðnum tveimur árum. 

„Þvert á móti hryktir í stoðum heilbrigðiskerfisins. Við reisum kannski ekki nýtt sjúkrahús saman. En við getum með heilsusamlegu líferni og gleðina að leiðarljósi lagt okkar lóð á vogarskálarnar og dregið úr álagi á heilbrigðiskerfið. Við eyðum kannski ekki öllum biðlistum á hinar og þessar deildir og heilsugæslur. En með heilbrigðu líferni getum við leyst hnútinn, komið skektunni á réttan kjöl og dregið verulega á álagi á kerfið allt... Það gerum við með forvirkum aðgerðum. Æfingum, mótum og njótum þess að nýta hvert tækifæri sem gefst til að hreyfa okkar. Aðgerðir sem þessar hafa mikil jákvæð þjóðhagsleg áhrif. Hreyfingin skilar sér margfalt til baka,“ sagði Jóhann Steinar. 

 

Ávarp Jóhanns í heild sinni

Verið hjartanlega velkomin þetta á tólfta landsmót UMFÍ fyrir fimmtíu ára og eldri hér í Vogum. Það er ánægjulegt að sjá ykkur hér. Fólk sem skemmtir með hreyfingu og hefur ánægju af því að keppa við aðra. 
Þetta landsmót hefur verið haldið í meira en áratug og aldrei á sama stað. Það kallar á reglulega endurnýjun, ný kynni við nýtt fólk, nýtt samstarf og nýja gleði. Það er alltaf jafn gaman að koma á nýja staði. Og þetta er aldeilis nýjung. Við hjá UMFÍ erum líka að stíga ný skref: Við höfum aldrei áður haldið mót með Ungmennafélaginu Þrótti og sveitarfélaginu Vogum. 

Á sama tíma og við erum í sífelldri endurnýjum þá höfum við tekið eftir því á mótinu að hér endurnýjast gömul kynni, hér mætast gamlir mótherjar á nýjan leik og keppa hvor gegn öðrum. 

Sumir eftir áratuga hlé eftir að hafa komið börnum sínum öruggum úr hreiðri.

Við sjáum það í gögnum sem safnað hefur verið saman í gegnum árin að hreyfing, gleði og samveru samhliða heilbrigðu líferni hefur jákvæð áhrif á líkama og sál. 

Ef við hugum að okkur og hreyfum okkur til heilsubótar þá bætum við árum við lífið – og reyndar – með gleðina í fyrirrúmi bætum við lífi við árin. 

Samveran og upplifun gleði með öðrum bætir lífið. 

Þar er hamingjan.

Þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, setti landsmótið í Borgarnesi fyrir tveimur árum sagði hann Íslendinga í vanda stadda. Heilbrigðiskerfið nái ekki utan um alla og því verðum við að grípa til okkar ráða. En vandinn verði ekki leystur með því að byggja fleiri álmur  og spítala. Staðan hefur alls ekki batnað síðan þetta var. Þvert á móti hryktir í stoðum heilbrigðiskerfisins. Við reisum kannski ekki nýtt sjúkrahús saman. En við getum með heilsusamlegu líferni og gleðina að leiðarljósi lagt okkar lóð á vogarskálarnar og dregið úr álagi á heilbrigðiskerfið. Við eyðum kannski ekki öllum biðlistum á hinar og þessar deildir og heilsugæslur. En með heilbrigðu líferni getum við leyst hnútinn, komið skektunni á réttan kjöl og dregið verulega á álagi á kerfið allt... 

Það gerum við með forvirkum aðgerðum. Æfingum, mótum og njótum þess að nýta hvert tækifæri sem gefst til að hreyfa okkar. Aðgerðir sem þessar hafa mikil jákvæð þjóðhagsleg áhrif. Hreyfingin skilar sér margfalt til baka. 

Hlutverk okkar hjá UMFÍ og í raun íþróttahreyfingarinnar allrar er að búa til tækifæri, finna stað og stund svo folk geti notið þess að hreyfa sig. 

Landsmót UMFÍ 50+ hér í Vogum er slíkur viðburður. 

En nú ætlum við að njóta.

Við hjá UMFÍ þökkum öllum hér í Vogum og á Suðurnesjum samstarfið. Þið vitið það öll sem standið í skipulagningu á móti sem þessu að þetta er líkast því að standa sjálfur í keppni, það reynir á alla. En þegar upp er staðið er hver og einn sigurvegari, Sigga á klukkunni, Lalli á ritaraborðinu, þú sem mældir boltana í boccía…. Þið eruð öll sigurvegarar á ykkar forsendum.

Takk sjálfboðaliðar, ungmennafélagar í Þrótti Vogum, sveitarstjórn Voga og stuðningsaðilar sem gerðuð mótið að veruleika.

Ég óska ykkur öllum hér góðrar skemmtunar á landsmótinu og hvet ykkur til að prófa allt það sem mótið hefur upp á að bjóða. 

Góða skemmtun um helgina. Ég segi Landsmót UMFÍ 50+ sett.