Íþróttahreyfingin stuðli að auknum atvinnutækifærum
Stjórnvöld hafa gripið til umfangsmikilla aðgerða til að fjölga atvinnutækifærum atvinnuleitenda og námsmanna í sumar.
Þetta er liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að stuðla að virkni og framtíðarsókn. Átaksverkefnin eru eins og klæðskerasniðin fyrir starfsemi íþróttafélaga og annarra frjálsra félagasamtaka.
Verkefnin eru tvenns konar, annars vegar er hægt að ráða fólk í atvinnuleit til starfa sem hefur verið á atvinnuleysisskrá í a.m.k. 12 mánuði og hins vegar námsmann í sumar. Hægt er að ráða fólk í atvinnuleit frá apríl til desember en námsmenn í tvo og hálfan mánuð.
Íþróttafélög geta nýtt tækifærið og ráðið starfsfólk, svo sem nemendur í íþróttafræðum til að sinna tilteknum verkefnum. Athugið þó, að viðkomandi héraðssamband eða íþróttafélag þarf að hafa a.m.k. einn starfsmann á launaskrá til að geta nýtt sér úrræðið.
UMFÍ hvetur forystufólk í íþróttahreyfingunni og alla þá sem áhuga hafa á málinu að hafa samband við þjónustumiðstöð UMFÍ.
Verkefnin í hnotskurn
Hefjum störf
- Markmið átaksins er að skapa allt að 7 þúsund tímabundin störf í samvinnu við atvinnulífið, opinberar stofnanir og félagasamtök.
- Frjáls félagasamtök sem ræður atvinnuleitanda sem hefur verið á atvinnuleysisskrá í að minnsta kosti 12 mánuði fær styrk sem nemur fullum mánaðarlaunum að hámarki 472.835 kr. á mánuði að viðbættu 11,5% mótframlagi í lífeyrissjóð í allt að sex mánuði.
- Til viðbótar geta frjáls félagasamtök fengið sérstakan styrk sem nemur allt að 25% af fjárhæð þess styrks sem greiddur er hverju sinni vegna kostnaðar hlutaðeigandi félagasamtaka í tengslum við þau tímabundnu átaksverkefni sem um ræðir.
- Ráðningartímabilið er sex mánuðir, frá apríl til desember.
- Félagasamtök, sem rekin eru til almannaheilla og án hagnaðarsjónarmiða, er gert kleift að stofna til tímabundinna átaksverkefna í vor og sumar með ráðningarstyrk sem nemur fullum launum samkvæmt kjarasamningum að hámarki 472.835 krónur á mánuði sem er hámark tekjutengdra bóta auk 11,5% mótframlags í lífeyrissjóð.
- Þá verður greitt 25% álag til þess að standa straum af kostnaði við verkefnin, svo sem við landvernd, viðhald göngustíga, landhreinsun, gróðursetningu, íþróttir og afþreyingu fyrir börn og unglinga og svo framvegis.
- Skilyrði fyrir ráðningarstyrk er að viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið án atvinnu í 12 mánuði eða lengur.
- Ráðning atvinnuleitanda felur í sér aukningu á starfsmannafjölda og að félagasamtökin hafi a.m.k. einn starfsmann á launaskrá áður en til ráðningar atvinnuleitanda kemur.
- Að félagasamtökin séu í skilum með launatengd gjöld og opinber gjöld, svo sem iðgjöld og mótframlag í lífeyrissjóð, stéttarfélagsgjöld og tryggingagjald.
- Styrkur er greiddur í hlutfalli við starfshlutfall.
- Öll frjáls félagasamtök sem uppfylla almenn skilyrði Ráðningarstyrks geta ráðið atvinnuleitendur sem hafa verið án atvinnu 1 mánuð eða lengur og fengið styrk sem nemur allt að 342 þús. á mánuði í 6 mánuði.
- Dæmi um stöðugildi sem gætu nýst hreyfingunni: Aðstoð í búningsklefum, aðstoð við umsjón barna á íþróttaæfingum, aðstoð við ýmis skrifstofuverk, aðstoð við mót og viðburði, skráning sögulegra gagna.
Ítarlegri upplýsingar um Hefjum störf á vef Stjórnarráðsins
2.500 sumarstörf fyrir námsmenn
- Markmið átaksins er að ná til þess hóps námsmanna sem fær ekki starf eða hefur aðgang að öðru í sumar. Stefnt er að því að verja tæpum 2,4 milljörðum króna í verkefnið.
- Markmiðið er að til verði um 2.500 tímabundin störf fyrir námsmenn 18 ára og eldri í samvinnu við opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök.
- Hverjum nýjum námsmanni sem ráðinn er inn með úrræðinu fylgir styrkur sem nemur fullum dagvinnulaunum samkvæmt gildandi kjarasamningum, en mest að hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta, allt að 472 þúsund kr. á mánuði auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð. Ráðningartímabilið er allt að tveir og hálfur mánuður.
- Dæmi um stöðugildi: Umsjón eða aðstoð með sumarnámskeið, þjálfun barna og ungmenna og allt annað milli himins og jarðar.