Fara á efnissvæði
24. febrúar 2025

Íþróttahreyfingin sýni frumkvæði

Endurskoðun íþróttalaga stendur fyrir dyrum. Forsvarsfólk íþróttahreyfingarinnar þarf að sýna frumkvæði, vera óhrætt við að skoða hlutverkaskiptingu þeirra ólíku aðila sem að starfinu koma og ræða fullan aðskilnað á fjárhagstengingum innan félaga á milli barna- og unglingastarfs og starfs meistaraflokka. „Stjórnvöld þurfa auk þess að styðja betur við byggðastefnu sína með verulega auknum stuðningi á ferðakostnaði,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ.

Hann var gestur á þingi Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) á laugardag og flutti þar ávarp. Í því kom hann inn á ýmsa þætti, svo sem bréf frá skattayfirvöldum til nokkurra íþróttafélaga þar sem fjallað var um launþegasamband í stað verktakasambands.

„Við þessar aðstæður er mikilvægt að öll hreyfingin verði samstíga um þau viðbrögð sem gripið verður til. Eins og í öllum málum kunna ákveðnir aðilar að geta skotist áfram og náð árangri á stuttum tíma - en mögulega á kostnað heildarinnar. Ef vinna á verkið með langtímalausn fyrir samfélagið í huga þá verðum við að vinna saman,“ sagði Jóhann Steinar og vakti máls á ýmsum fleiri atriðum sem séu í gangi innan íþróttahreyfingarinnar. Þar á meðal sé stofnun svæðisstöðva íþróttahéraðanna, sem munu auka skilvirkni innan íþróttahreyfingarinnar.

Jóhann benti jafnframt á að sameining íþróttahéraða sé í farvatninu og stefni í að öll íþróttahéruð landsins verði sambandsaðilar UMFÍ. Eina héraðið sem standi út af sé Íþróttabandalag Vestmannaeyja, en stjórn UMFÍ hefur samþykkt aðildarumsókn bandalagsins. Enn á reyndar eftir að samþykkja aðildarumsókn ÍBV á þingi bandalagsins, sem haldið verður í vor.

 

Ávarp Jóhanns Steinars í heild sinni

Formaður og stjórn KSÍ, ágætu gestir og þingfulltrúar.

Það er ávallt ánægjulegt að vera með ykkur. Á þingi KSÍ finnur maður alltaf kraftinn, viljann til að gera betur og kafa djúpt í málin. Hér og á fleiri þingum sem fram undan eru þurfum við að leita leiða til að þróa íþróttahreyfinguna til framtíðar.

Síðustu misseri hefur íþróttahreyfingin tekið umtalsverðum breytingum. Með bréfi skattayfirvalda um launþegasamband í stað verktakasambands eru teikn á lofti um að frekari breytingar séu í farvatninu. Við þessar aðstæður er mikilvægt að öll hreyfingin verði samstíga um þau viðbrögð sem gripið verður til.

Eins og í öllum málum kunna ákveðnir aðilar að geta skotist áfram og náð árangri á stuttum tíma - en mögulega á kostnað heildarinnar. Ef vinna á verkið með langtímalausn fyrir samfélagið í huga þá verðum við að vinna saman.

Í þeim efnum getum við tekið getraunafyrirtæki íþróttahreyfingarinnar sem dæmi. Íslenskar getraunir og Íslensk getspá hafa gefið til baka svo um munar og stutt vel við félögin. Þótt erlend getraunafyrirtæki geti stutt ákveðin félög eða einstaka deildir meira en nú er gert þá er það ekki endilega heildinni til gagns.

En að jákvæðari efnum sem er íþróttahreyfingunni til heilla.

Aðeins ár er liðið síðan stór skref voru stigin. Þá voru átta svæðisstöðvar settar á laggirnar fyrir öll íþróttahéruð landsins. Við þá framkvæmd smullu saman fjölmargir þættir sem lengi hafði verið karpað um. Átök voru um skiptingu lottófjármuna, erfitt var að fá opinberan stuðning héraða á landsvísu og mögulegar hagræðingar með sameiningum voru í spennitreyju regluverks- og tekjumöguleika.

Hlutverk svæðisstöðvanna er að þjónusta íþróttahéruðin í nærumhverfi sínu með samræmdum hætti. Sterkari íþróttahéruð og svæðisstöðvar um allt land auka skilvirkni innan íþróttahreyfingarinnar og gera þeim kleift að takast á við núverandi og fyrirséð verkefni. Framtíðarsýn með fyrirkomulagi svæðisstöðvanna er að það skili sér í betri nýtingu á mannauði, meiri stuðningi við einstaka íþróttafélög og betri þjónustu við iðkendur. Það fer líka saman við þá framtíðarsýn stjórnvalda að sem flestir hafi tækifæri til að stunda íþróttir á því sviði sem þeir kjósa, til ánægju, heilsubótar eða á vettvangi afreksstarfsins.

Við erum þegar farin að sjá sýnilegan árangur.

Svæðisfulltrúarnir hafa unnið að greiningum og aðgerðaráætlunum á sínum svæðum, skoðað stöðu íþróttahéraða, virkni þeirra og byggt brýr milli sveitarfélaga og íþróttahéraða. Nú þegar hafa ýmis verkefni litið dagsins ljós – þar á meðal nýjungar sem styrkja starfið. Sameining íþróttahéraða er í farvatninu og nú stefnir í að öll íþróttahéruð verði sambandsaðilar UMFÍ. Eina héraðið sem nú stendur útaf er ÍBV en stjórn UMFÍ hefur þegar samþykkt inngöngu þeirra með fyrirvara um samþykki þings ÍBV sem haldið verður í vor.

Nú stendur endurskoðun íþróttalaga fyrir dyrum. Við þurfum að sýna frumkvæði, vera óhrædd við að skoða hlutverkaskiptingu þeirra ólíku aðila sem að starfinu koma. En við þurfum líka að ræða fullan aðskilnað á fjárhagstengingum innan félaga á milli barna- og unglingastarfs og starfs meistaraflokka. Mögulega skapast líka tækifæri á að svara túlkun skattayfirvalda og tryggja endurgreiðslu tryggingagjalds og virðisaukaskatts. Stjórnvöld þurfa auk þess að styðja betur við byggðastefnu sína með verulega auknum stuðningi á ferðakostnaði.

Margt er fram undan.

Við getum ekki setið lengur á okkur. Nú verðum við að nýta tækifærið og fara í samtalið.

Knattspyrnuhreyfingin er stærsta sérsambandið innan íþróttahreyfingarinnar. Þar er mikil reynsla og öflugt fólk með mikla þekkingu. Þá var eftirtektarvert heimboðið sem KSÍ sendi forsvarsfólki sérsambanda og bauð í óformlegt spjall. Slíkt frumkvæði er til fyrirmyndar og ég hlakka til að sjá afrakstur heimboðsins.

Kæru félagar, höldum áfram að þora og standa undir því að vera þær fyrirmyndir sem við viljum að íþróttahreyfingin standi fyrir, verum óhrædd við að sýna frumkvæði og vinnum saman að því að gera íþróttahreyfinguna alla enn betri.

Það er okkur öllum og samfélaginu til góða.

Ég óska knattspyrnuhreyfingunni velfarnaðar, þakka starfsmönnum og sjálfboðaliðum fyrir óeigingjarnt starf, og óska ykkur góðs gengis á þinginu í dag.

Njótum stundarinnar.