Fara á efnissvæði
04. mars 2024

Íþróttahreyfingin undirbýr 16 ný störf

Sextán störf á nýjum svæðastöðvum íþróttahreyfingarinnar verða auglýst á næstu dögum. Fólk sem sæti á í undirbúningshópi segja vinnu með grasrótinni skipta miklu máli. 

„Svæðastöðvarnar bera með sér svo miklar framfarir og farsæld. Þær munu auka skilvirkni í íþróttahreyfingunni, bæta upplýsingaflæði og viðhalda þekkingu. Þær munu valda straumhvörfum fyrir litlu félögin úti á landi sem eru með starfsfólk í hlutastarfi. Ef einhvern tíma er tækifæri til að bæta starfið í íþróttahreyfingunni þá er það komið núna,“ segir Guðný Stefanía Stefánsdóttir. Hún er fyrrverandi formaður Héraðssambands Vestfirðinga (HSV) og á sæti í tengiliðahópi sem samanstendur af fulltrúum íþróttahreyfingarinnar af öllu landinu.  

 

Átta svæðastöðvar um allt land

Svæðastöðvarnar byggja á samhljóða tillögu ÍSÍ og UMFÍ og felur í sér að komið verði á fót átta stöðvum með tveimur stöðugildum á hverju svæði með muni þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins með samræmdum hætti.

Tillagan var samþykkt á þingi ÍSÍ í fyrravor og á þingi UMFÍ í fyrrahaust. Samhliða því var gerð breyting á greiðslu fjármagns til íþróttahéraða frá ÍSÍ og UMFÍ sem felur í sér að af því fjármagni sem fer til íþróttahéraða þá sé 85% fjármagnsins greitt til þeirra miðað við opinberar tölur um íbúafjölda 0-18 ára. 15% af fjármagninu fara til reksturs sameiginlegra svæðastöðva.  

Um miðjan desember tryggði Mennta- og barnamálaráðherra einnig 400 milljónir króna til verkefnisins næstu tvö árin. Þar af setja ÍSÍ og UMFÍ 130 milljónir króna af árlegu framlagi ráðuneytisins til svæðastöðva og 70 milljónir króna til Hvatasjóðs. Á hverri svæðastöð verða tvö stöðugildi, annað fjármagnað af ráðuneytinu og hitt af íþróttahreyfingunni. 

Stofnun starfsstöðvanna átta fellur að áherslum og stefnu mennta- og barnamálaráðuneytisins í íþróttamálum til ársins 2030. Horft er til þess að auka íþróttaþátttöku barna og ungmenna, auka áherslu á þátttöku fatlaðra barna í íþróttastarfi, ná betur til barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. 

Eitt af markmiðum stefnumótunarinnar er jafnframt að ÍSÍ og UMFÍ skilgreini hlutverk íþróttahéraða að nýju og meti starfsemi þeirra með það að leiðarljósi að efla hana enn frekar. Til viðbótar er horft til samlegðaráhrifa við verkefni ríkis og sveitarfélaga, s.s. samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, skólaþjónustu og æskulýðsstarf. 

 

Meira fjármagn út á land 

Vinnuhópar UMFÍ og ÍSÍ sem unnu að tillögunni horfa til þess að sterkari íþróttahéruð og svæðastöðvar um allt land bæti skilvirkni íþróttahreyfingarinnar. Þá er með tillögunum greitt sambærilega til íþróttahéraða óháð aðild að ÍSÍ og UMFÍ þar sem sumir hlutu greiðslur og aðrir ekki ásamt mismunandi reglum, áherslum og skerðingum. Það verða til samhæfðari reglur um dreifingu fjármuna til íþróttahéraða um allt land og allir sitja við sama borð. Það felur í sér töluverðar breytingar frá því sem áður hefur verið. Auk þess er hluta fjármagnsins varið í svæðastöðvarnar og að því leyti er byggðastefna innifalin í svæðastöðunum. Í ljósi þess fer meira fjármagn út á land, þ.e. í gegnum svæðastöðvarnar.  

 

Léttir álagi á sjálfboðaliðum 

Guðný Stefanía leggur áherslu á að stofnun svæðastöðvanna er svar við því álagi sem lagt hefur verið á starfsfólk íþróttahreyfingarinnar og sjálfboðaliða. Eins muni þær draga úr þeim kröfum sem fyrir liggja að muni leggjast á hana. Markmið svæðastöðvanna er að samræma þjónustu íþróttahéraða við íþróttafélög landsins, ekki síst þau sem eru í fámennari og dreifðari byggðum landsins. Horft er til þess að svæðastöðvarnar tryggi betur þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi. 

 

Grasrótin vinnur að undirbúningi

 Við undirbúning svæðastöðvanna hefur verið unnið náið með grasrótinni í íþróttahreyfingunni um allt land. Óskað var eftir tilnefningum frá íþróttahéruðum og upp úr því varð til hópur fólks með einum fulltrúa frá hverju svæði; fulltrúa frá Austurlandi, Vesturlandi og höfuðborgarsvæðinu sem dæmi. Guðný Stefanía er fulltrúi íþróttahéraða á Vestfjörðum í undirbúningsvinnunni. 

Hópurinn hefur fundað með fulltrúum ÍSÍ og UMFÍ og hefur ráðgjafafyrirtækið Intellecta haldið utan um vinnuna.   

 

Verkefnið hefur gengið vel 

Helgi S. Haraldsson, sem situr í hópnum fyrir hönd íþrótthéraða á Suðurlandi, hampar stjórnvöldum fyrir góðar undirtektir. Nú þegar sé búið að fjármagna störfin næstu tvö árin.  

„Verkefnið hefur gengið mjög vel og unnið hratt. Við bjuggumst í raun ekki við svona skjótum undirtektum stjórnvalda,” segir Helgi sem leggur áherslu á að aðferðafræðin sem notuð var við undirbúning svæðastöðvanna sé góð. Gott sé að vinna málið náið með grasrótinni um allt land. Tillögurnar séu komnar á það stig að tengiliðir séu nú að kynna það, hver í sínu héraði. 

„Maður gerir sér grein fyrir því að eitt snið gildir ekki fyrir alla. Heldur þarf að aðlaga svæðstöðvarnar eftir hverju héraði og hverjum stað. En samhljómurinn er afar góður og hópurinn sammála um sýnina. Við höfum glímt við þröskulda áður, við höfum viljað opna dyr íþróttafélaga betur fyrir börn með fjölþættan menningarlegan bakgrunn, börn frá efnaminni fjölskyldum og börn með sérþarfir. Með þessu góða samstarfi við stjórnvöld hafa þær dyr opnast. En við þurfum auðvitað að vanda vinnuna,“ segir hann.  

  

Sextán störf auglýst fljótlega 

Tillögur hópsins liggja nú fyrir og eru þær umfangsmiklar enda koma þær inn á málefni stjórnsýslu, starfsfólk, starfs- og verkefnalýsing er útlistuð og búnir til mælikvarðar til að meta árangur af starfinu.  Niðurstöður hópsins hafa svo verið kynntar hjá öllum íþróttahéruðum og stjórnum ÍSÍ og UMFÍ. 

Störf á svæðastöðvunum verða auglýst á næstu dögum og er stefnt að því að starfsemi þeirri hefjist nú í vor. 

 

Á myndinni hér að ofan má sjá tenglahópinn þegar hann hittist og fundaði á dögunum.