Fara á efnissvæði
19. október 2020

Íþróttakennsla leyfð utandyra - skólasund fellur niður á höfuðborgarsvæði

Eftir langan dag og yfirferð um ýmsar sviðsmyndir og hvaða reglur eigi að gilda um íþróttastarf á höfuðborgarsvæðinu hefur Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins tekið af öll tvímæli. Nefndin hefur ákveðið að öll íþróttamannvirki og sundlaugar á vegum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu verði lokuð á morgun. Íþróttakennsla verður þó leyfð utandyra.

Ákvörðunin verður endurskoðuð í næstu viku í takt við álit sóttvarnalæknis.

Til stóð að íþróttastarf myndi hefjast á höfuðborgarsvæðinu að nýju á morgun, þriðjudaginn 20. október. En aðeins yrði um að ræða snertilausar íþróttir, sund og boltaíþróttir með þeim skilyrðum að iðkendur noti eigin bolta og undirgangist ýmsar kvaðir sem snúa að persónulegum smitvörnum. Þótt sundlaugar yrðu lokaðar almenningi stóð til að opna þær fyrir iðkendum og skólahópum svo lengi sem gætt yrði að fjöldatakmörkun fullorðinna.

Til viðbótar kom fram í reglugerð heilbrigðisráðherra frá um helgina, að heimilt sé með skilyrðum að standa fyrir og stunda íþrótta- og heilsuræktarstarfsemi á höfuðborgarsvæðinu ef um er að ræða skipulagðan hópatíma sem þátttakendur eru skráðir í. Þátttakendur í tímanum megi ekki skiptast á búnaði og allur búnaður sótthreinsaður að honum loknum.

 

Lok, lok og læs...

Í tilkynningu frá Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins nú í kvöld segir að nú sé viðkvæmur tími í faraldrinum. Smitum á höfuðborgarsvæðinu hafi fækkað síðustu daga. Næstu daga sé mikilvægt að ná enn frekari tökum á þessari bylgju svo hægt verði aftur að draga úr sóttvarnarráðstöfunum í stað þess að herða frekar á þeim.

Sóttvarnaryfirvöld og almannavarnir hafi hvatt alla og höfuðborgarsvæðið sérstaklega til að halda áfram að koma í veg fyrir hópamyndun, nánd og blöndun aðila úr ólíkum áttum næstu vikur. Markmiðið er að draga úr dreifingu og vexti veirunnar og vinna gegn auknu álagi á heilbrigðiskerfið.

Samfélagið á mikið undir því að það takist að halda skólastarfi gangandi. Því sé lögð áhersla á að takmarka blöndun barna og unglinga milli ólíkra leik- og grunnskóla höfuðborgarsvæðisins. Að öðrum kosti getur eitt smit leitt til að óþarflega stórir hópar eða fleiri en einn skóli þurfi að fara í einangrun eða sóttkví.

„Eftir ítarlega yfirferð yfir stöðuna og í ljósi leiðbeininga sóttvarnaryfirvalda og í samráði við almannavarnir höfuðborgarsvæðisins hafa skóla- og íþróttasvið allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu tekið þá ákvörðun að öll íþróttakennsla muni fara fram utandyra að teknu tilliti til ítrustu sóttvarna og einnig mun skólasund falla niður. Öll íþróttamannvirki og sundlaugar á vegum sveitarfélaganna verða lokuð. Söfn sem rekin eru á vegum sveitarfélaganna verða einnig lokuð.

Undir tilkynningu nefndarinnar ritar Jón Viðar Matthíasson, framkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins.