Fara á efnissvæði
07. júní 2022

Íþróttastarf fatlaðra á Íslandi fyrirmynd í Rúmeníu

„Rúmenar eru að vinna í því að setja á laggirnar íþróttafélög fatlaðra um þessar mundir og eru þess vegna að kynna sér hvernig málum er háttað hér á Íslandi,“ segir Anna Karólína Vilhjálmsdóttir hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Hún kom í heimsókn í þjónustumiðstöð UMFÍ í dag með sendinefnd frá Rúmeníu. Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, kynnti starfsemi ungmennafélagshreyfingarinnar fyrir hópnum.

Anna segir Rúmenana vera að skoða að koma á fót íþróttastarfi fyrir fatlaða í „klúbbaformi“ og tengja það háskólastarfi, sérskólum, samtökum og fleirum. Á meðal þess sem sendinefndin kynnir sér stuðningur sveitarfélaga, íþróttasamtaka og fleiri þættir sem lúta að uppbyggingu íþróttahreyfingarinnar, reglum, umgjörn og stuðningi við starfið.

Sendinefndin er samansett af fjölda fólks úr mismunandi greinum, þar á meðal er framkvæmdastjóri Special Olympics í Rúmeníu, skólastjóri og formaður íþróttafélagsins Deva, foreldrar barna og ungmenna með DOWNS-heilkenni, háskólakennarar og þjálfarar og forráðamenn nokkurra íþróttafélaga. Með Önnu Karólínu fylgir hópnum Karen Ásta Friðjónsdóttir, sem á sæti í stjórn Special Olympics á Íslandi.

Hópurinn heimsótti UMFÍ í morgun en mun síðar fara til ÍSÍ, til Hauka í Hafnarfirði, Gerplu í Kópavogi og heimsækja Sólheima í Grímsnesi.