28. september 2020
Íþróttir leyfðar áfram ef sérsamband hefur sett sér reglur
Íþróttir eru leyfðar áfram svo framarlega sem sérsambönd hafi gert sér reglur, með samþykki sóttvarnayfirvalda, er varða æfingar og keppni í sinni grein. Áfram miðast hámarksfjöldi áhorfenda við 200 einstaklinga í rými og þarf að tryggja eins metra nándartakmörk.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í auglýsingu heilbrigðisráðherra vegna COVID-19 sem tekur gildi í dag. Gildistími hennar varir til 18. október næstkomandi.
Í auglýsingunni segir að íþróttir með með snertingu verði leyfðar að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
- Sérsambönd ÍSÍ geri reglur um framkvæmd æfinga og keppni í sínum greinum.
- Reglurnar verði unnar í samvinnu við ÍSÍ sem leitar sérfræðiráðgjafar hjá sóttvarnalækni
- Eins metra nándartakmörkun verði virt í búningsklefum og öðrum svæðum utan keppni og æfinga skv. reglum hvers sérsambands ÍSÍ.
- Áhorfendur eru leyfðir skv. reglum hvers sérsambands ÍSÍ.
- Keppnisáhöld verði sótthreinsuð milli notenda eins og kostur er og samkvæmt reglum hvers sérsambands ÍSÍ.
- Íþróttir sem ekki eru innan ÍSÍ njóti sömu leiðbeininga og sambærilegar íþróttir innan ÍSÍ.
- Hámarksfjöldi áhorfenda í sama hólfi verði áfram 200 einstaklingar og tryggja þarf eins metra nándartakmörk. Tryggt verði að blöndun einstaklinga verði ekki á milli 3 hólfa hvorki í inngangi/útgangi, salernisaðstöðu eða veitingasölu.
- Börn fædd 2005 og síðar teljast ekki með.