Fara á efnissvæði
18. september 2023

Jarðbúar í veseni

„Við getum gert heiminn að betri stað. Fólk getur tileinkað sér prívatlausnir, hreyft sig meira og borðað öðruvísi mat. Þetta getur verið skemmtileg vegferð í umhverfis- og loftslagsmálum,“ segir jarðfræðingurinn Sævar Helgi Bragason, sem þekktur er sem Stjörnu-Sævar.

Hann verður með erindi og málstofu um lausnir í loftlags- og umverfismálum á ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði, sem fram fer í Skólabúðunum á Reykjum helgina 22. – 24. september. 

Yfirskrift erindis Sævars er: Jarðbúar í veseni.

Sævar Helgi er landsþekktur og hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir framúrskarandi miðlum sína á vísindatengdu efni til fólks á öllum aldri. Hann hefur gefið út vísindabækur og flutt pistla í útvarpi og sjónvarpi um málið. Þar á meðal eru sjónvarpsþættirnir Hvað höfum við gert? og Hvað getum við gert? sem fjölluðu um loftslagsmál. 

 

Gaman að tileinka sér vistvænan lífsstíl

Í erindinu fer hann yfir málefnið í stóru samhengi en tekur síðan dæmisögur úr fortíðinni til að sýna hvernig mannkyninu hefur tekist að leysa stór aðsteðjandi vandamál með glæsibrag.

Sævar Helgi segir að þrátt fyrir að mannkynið hafi komið sér í umhverfisklandur, þá erum við sem betur fer klár og úrræðagóð og vitum alveg hvað þarf að gera. 

„Það eru margþættar lausnir í því að gera heiminn að betri stað. Það má tileinka sér vistvænan lífsstíl, hreyfa sig meira og fleira í þeim dúr. Og það er nú varla vont. Það er enginn að tala um að hætta að gera allt það sem er skemmtilegt,“ segir hann og bendir á að á síðastliðnum fjörutíu árum hafi fólk gripið til ýmissa ráða í umhverfis- og loftslagsmálum. 

„Við erum mörg fljót að gleyma. Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar var mikið talað um ósonlagið. Þjóðir heimsins sneru bökum saman og bönnuðu klórflúor-kolefnissambönd, efni sem notuð voru mikið í kælitækni. Þess í stað voru fundin upp önnur kæliefni og ósonlagið jafnaði sig fljótt. Það eru til mörg önnur dæmi sem þessi um frábært samstarf þjóða til að gera heiminn að betri stað,“ segir hann og nefnir sem dæmi notkun á skordýraeitri, leiðir til að fljúga með umhverfisvænni hætti á milli landa og svo má lengi telja.  
Auk erindisins verður Sævar með málstofu þar sem þátttakendur ræða saman og geta varpað fram hugmyndum um lausnir í umhverfis- og loftslagsmálum. 

„Það er svo margt sem við getum gert til að gera heiminn að betri stað. Það gerum við saman og með prívatlausnum. Þetta verður létt og skemmtilegt og vonandi lærum við öll eitthvað nýtt,“ segir Sævar Helgi að lokum. 

 

Hellings gleði

Ungmennaráð UMFÍ hefur veg og vanda að ráðstefnunni. Auk erindis og málstofu Sævars verður boðið upp á hellings hópefli. Umhverfis- og loftlagsmál rædd og skoðuð út frá ólíkum sjónarhornum í þremur málstofum. Boðið verður upp á óformlegt samtal við ráðafólk, kvöldvökur og önnur skemmtilegheit.
 
Eins og nafnið gefur til kynna er ráðstefnan fyrir ungt fólk á aldrinum 16 – 25 ára. Ekki þarf að vera í ungmennaráði til þess að mæta heldur er nóg að hafa áhuga á efninu og samvinnu við jafningja. Ráðstefnan er opin fyrir öll ungmenni á tilsettum aldri.


https://forms.gle/WSuzHVkMWWyG8KLV9

 

Hlekkir á upplýsingar:

  
•    Hér er allt um ráðstefnuna á Facebook
•    Hér geturðu skráð þig á ráðstefnuna
•    Meiri upplýsingar um ráðstefnuna á umfi.is

Skráningafrestur er fram á morgundag, til þriðjudagsins 19. september.

Fyrirhyggja er alltaf best og því hvetjum við til þess að bíða ekki fram á síðustu stundu með skráningu.

Ráðstefnan er styrkt af Erasmus+.