Fara á efnissvæði
11. mars 2019

Jöfn kynjahlutföll í stjórn Keflavíkur

„Þetta er mjög spennandi og áhugavert,“ segir Jónína Steinunn Helgadóttir. Hún var á aðalfundi Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags, í síðustu viku kjörin varamaður í stjórn félagsins. Jónína kemur ný inn í stjórnina ásamt Sveinbjörgu Sigurðardóttur. Þær komu inn í stað þeirra Birgis Ingibergssonar og Sveins Júlíusar Adolfssonar, sem höfðu verið í 20 ár í stjórninni. Á aðalfundinum voru þeir heiðraðir fyrir störf sín með gullmerki Keflavíkur. Ólafur Ásmundsson var jafnframt heiðraður með starfsbikar Keflavíkur en hann er veittur þeim félagsmanni sem  unnið hefur mikla sjálfboðavinnu í þágu félagsins.

 

Jónína er enginn nýgræðingur í stjórnarstörfum en hún sat um sex ára skeið í fimleikadeild Keflavíkur. Hún hefur jafnframt hlotið bronsmerki Keflavíkur fyrir störf sín.

Jónína segir þá sem sitja í stjórn Keflavíkur skipta með sér verkum. Þar séu allir jafnir.

„Svo erum við í stjórninni miklar áhugakonur um íþróttir hér og sjáumst oft á flestum leikjum,“ bætir hún við.

 

Jöfn kynjahlutföll

Með innkomu þeirra Jónínu og Sveinbjargar í aðalstjórn Keflavíkur eru kynjahlutföllin þar í fyrsta skipti jöfn, fjórar konur og fjórir karlar.   

Jafnt kynjahlutfall er í samræmi við jafnréttisáætlun Keflavíkur. Í jafnfréttisáætluninni kemur fram að hlutfall kynjanna í nefndum, ráðum og stjórnum félagsins eigi að vera sem jafnast og endurspegla hlutfall iðkenda. Jafnréttisáætlunin á að vera virk í öllu starfi félagsins, lifandi plagg sem taki breytingum þegar þurfa þyki. Stjórn félagsins fari árlega yfir jafnréttisáætlunina og meti árangur verkefnisins.

Sjá: Jafnréttisáætlun Keflavíkur

 

 

Fram kemur í jafnréttisáætlun Keflavíkur að hún eigi að vera virk í öllu starfi félagsins, í sífelldri þróun og vera endurskoðuð á fjögurra ára fresti.

„Við höfum alltaf leitað eftir því að hafa jöfn kynjahlutföll í stjórninni. Nú tókst það loksins,“ segir Einar Haraldsson, formaður og framkvæmdastjóri Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags.