Fara á efnissvæði
18. júní 2021

Jóhann Björn nýr formaður Héraðssambands Strandamanna

Fámennt en góðmennt var á ársþingi Héraðssambands Strandamanna (HSS) sem haldið var í síðustu viku í skíðaskála í Selárdal. Innan HSS eru sex aðildarfélög og mættu alla jafna 3-4 frá hverju félagi. Einn mætti hins vegar frá Ungmennafélaginu Geisla en félagið átti rétt á 19 fulltrúum. Þá forfallaðist formaður HSS, gjaldkeri og varaformaðurinn var í sóttkví.

„Við gerðum okkar besta og fundurinn var góður,“  segir Harpa Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri HSS. Hún kann ekki aðrar skýringar á fámenninu aðrar en þær að veikindi og sóttkví hafi staðið í vegi fyrir að fólk kom á þingið.

Engin stórmál voru á dagskrá að undanskildum þeim hefðbundnu, að sögn Hörpu. Þar á meðal voru málefni ársreikninga, nefndarstörf og þess háttar. Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri UMSB í Borgarbyggð og starfsmaður UMFÍ, var fulltrúi UMFÍ á þinginu.

Hrafnhildur Skúladóttir, formaður HSS, gaf ekki kost á sér áfram og var Jóhann Björn Arngrímsson, varaformaður HSS, kosinn í hennar stað. Við sæti varaformanns tók Óskar Torfason, en hann hafði áður verið meðstjórnandi.

Fleiri breytingar er í vændum hjá HSS en Harpa hefur sjálf sagt starfi sínu lausu og er nýs framkvæmdastjóra nú leitað. Starf framkvæmdastjórans er æði fjölbreytt og lifandi enda mikilvægt að hafa drífandi einstaklinga í starfinu. Á meðal annarra starfa er að halda utan um skipulag og framkvæmd móta HSS, þar á meðal Götuhlaup HSS, félagakerfi og fleira.

Nánar um málið má lesa á Facebook-síðu HSS