Fara á efnissvæði
16. október 2021

Jóhann Steinar: Bætum okkur sjálf og samfélagið um leið

„UMFÍ leggur áherslu á að vera þátttakandi í samfélaginu og hafa áhrif,‟ að sögn Jóhanns Steinars Ingimundarsonar, varaformanns UMFÍ. „Hlutverk UMFI er að styrkja starf sambandsaðila og aðildarfélaga þeirra ásamt því að hvetja og styðja við bætta lýðheilsu landsmanna.‟

Ávarp Jóhanns var liður í umfjöllun hans um stefnumótunarvinnu ungmennafélagshreyfingarinnar á sambandsþingi UMFÍ sem fram fer á Húsavík um helgina.

Jóhann sagði markmið stefnunnar að bæta starf UMFÍ verulega, gera hreyfinguna samstillta, viðbragðsfljóta, nútímalega og að öflugra landssambandi sem hafi hagsmuni allra íþróttahéraða og félaga þeirra í forgrunni.

Jóhann sagði jafnframt stefnumótunarvinnuna felast í því að draga fram skýra framtíðarsýn, skilgreina hlutverkið og hafa sameiginlegan skilning á því hvernig eigi að ná markmiðum hreyfingarinnar.

„Stefnan og áherslur hennar munu auðvelda ungmennafélagshreyfingunni að stefna í sömu átt og ná settu marki. Ungmennafélagshreyfingin hefur lengi haft jákvæð áhrif á samfélagið. Við sem komum að starfinu erum stolt af starfinu um land allt og horfum björtum augum til framtíðarinnar. Höldum áfram að þróast með ungmennafélagsandann að leiðarljósi með því bætum við okkur sjálf og samfélagið um leið, það er ungmennafélagsandinn í verki,‟ sagði hann.