Fara á efnissvæði
11. október 2022

Jóhann Steinar: Of margir með úttroðnar varir og tóbaksnef

„Íþróttahreyfingin verður að taka að sér forystuhlutverk og vera til fyrirmyndar um heilbrigt líferni. Því miður eru enn of margir innan vébanda hennar sem sjást á vettvangi hreyfingarinnar með úttroðnar varir og tóbaksnef,‟ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, og bætti við að hampa ætti fyrirmyndum sem ekki nota nikótín.

Hann hélt ávarp við setningu málþings um nikótín og heilsu, sem fram fór í dag. Þar var m.a. fjallað um áhrif nikótíns á heilsu, notkun, nikótínfíkn, fræðslu um tóbaksvörur, viðhorf Íslendinga til nikótínpúða og rafretta ásamt því sem fjallað var um nauðsyn þess að setja lög um nikótínvörur. Lögin voru samþykkt í júní 2022.

Að málþinginu stóðu UMFÍ, Fræðsla- og forvarnir og Krabbameinsfélag höfðuðborgarsvæðiðsins.

 

50 ára baráttu kastað á glæ

Þar kom m.a. fram að samkvæmt könnun borgarlæknis árið 1975 hafi helmingu 15-16 ára ungmenna reykt. Í kjölfarið hafi krabbameinsfélög farið af stað með átak sem enn standi yfir og hafi ásamt íslenska forvarnarmódelinu svokallaða skilað því að mikill meirihluti nemenda jafnaldra þeirra nú séu reyklaus – í það minnsta reyki afar lítill hópur ungmenna.

 

Málþingið er hægt að sjá í heild sinni hér

 

Á hinn bóginn hefur reglugerðaleysi valdið því að munntóbaksnotkun og notkun á rafrettum hafi aukist með svo miklum hraða að á síðastliðnum tveimur árum hafi næstum fimmtíu ára árangri verið kastað á glæ.

 

Fíknin finnur sér farveg

Fram kom á málþinginu að áhrif rafretta og nikótínvara annarra en sígaretta og reyktóbaks hafi lítið verið rannsakað. Vörurnar innihaldi oftar en ekki margfalt meira magn af nikótíni en sígarettur. Þar sem þær séu bragðbættar sé reynt að höfða til yngri aldurshópa, jafnvel ungmenna sem aldrei hafi áður reykt. Þá hafi kannanir sýnt að meirihluti þeirra sem noti nikótínvörur eins og munntókbak og rafrettur hafi ekki reykt áður.

Lára Sigurðardóttir, læknir og doktor í lýðheilsuvísindum, fjallaði ítarlega um áhrif nikótíns á heilsu ungmenna og mikilvægi lýðheilsuaðgerða. Benti hún m.a. að árið 2019 hafi stærstu eigendur nikótínpúðaframleiðenda verið tóbaksframleiðendur og ljóst sé að fíkninni sé ávallt fundinn ný farvegur.

Jóhann steinar sagði einmitt í opnunarávarpi sínu ótrúlegt til þess að hugsa að þrátt fyrir alla þekkinguna sem liggi fyrir um skaðsemi nikótíns sé með ólikindum að enn þurfi að vara við nikótínvörum. Fólki eigi að vita betur nú á tímum.

„Það er með ólíkindum hvað mannkynið hefur afrekað í gegnum tíðina. Við höfum sent fólk til tunglsins, umhverfis jörðina og ráðist með árangursríkum hætti gegn helstu sjúkdómum sem á árum áður komu okkur í gröfina. En þrátt fyrir það er það alltaf fíknin sem kemur aftan að okkur og fellir. Fíknin – sem við ráðum því miður ekki við - er verkefni sem við sem samfélag verðum að takast á við með það að markmiði að skapa heilbrigðara líf fyrir alla. Nikótín, ásamt hreyfingarleysi, áfengisneyslu og óheilbrigðum lífsstíl er einn helsti orsakavaldur þess að lífsgæði okkar rýrna og leiðir suma í gröfina langt á undan öðrum,“ sagði hann.

 

Ávarp Jóhanns í heild sinni:

Ég býð ykkur velkomin á málþing um nikótín og heilsu. Við hjá UMFÍ teljum þetta vera mikilvægt málefni því það kemur inná fíknina hjá okkur mönnunum. Sú staða skýrir einnig hvers vegna við þurfum enn að fjalla um málaflokkinn í upphafi 21. aldarinnar þrátt fyrir alla þá þekkingu sem liggur fyrir um skaðsemi nikótíns. Þá er ekki síður mikilvægara en áður að fjalla um og leggja áherslu á heilbrigðari lífshætti.

Það er með ólíkindum hvað mannkynið hefur afrekað í gegnum tíðina. Við höfum sent fólk til tunglsins, umhverfis jörðina og ráðist með árangursríkum hætti gegn helstu sjúkdómum sem á árum áður komu okkur í gröfina. En þrátt fyrir það er það alltaf fíknin sem kemur aftan að okkur og fellir. Fíknin – sem við ráðum því miður ekki við - er verkefni sem við sem samfélag verðum að takast á við með það að markmiði að skapa heilbrigðara líf fyrir alla.

Það verðum við að gera saman.

Nikótín, ásamt hreyfingarleysi, áfengisneyslu og óheilbrigðum lífsstíl er einn helsti orsakavaldur þess að lífsgæði okkar rýrna og leiðir suma í gröfina langt á undan öðrum.

Við Íslendingar höfum reynslu af því að samstillt átak getur tryggt betri árangur til heilbrigðara lífs og aukinna lífsgæða. Gögn sem Rannsóknir og greining hafa tekið saman sýna að árangurinn af íslenska forvarnamódelinu er ótvíræður. Það er aðdáunarvert hversu samstillt átak margra aðila í nærumhverfi barna og ungmenna hefur skilað. Ævintýralegur árangur sem endurspeglast í minni neyslu ungs fólks á áfengi og tóbaki á þeim tæpu 25 árum sem liðin eru síðan módelið var innleitt.

Staðan var beinlínis skelfileg árið 1998 og Íslendingar langt í frá til fyrirmyndar þegar 42% ungmenna í tíunda bekk höfðu drukkið áfengi að minnsta kosti einu sinni í mánuði, 23% jafnaldra þeirra reykti daglega og heil 17% neyttu kannabisefna.

Nýjustu tölur endurspegla gríðarlegan árangur til batnaðar. Í raun aðdáunarverðan árangur sem tekið er eftir í öðrum löndum. Margrét Lilja sýnir okkur þetta allt betur hér á eftir.

En alltaf skulum við glíma við sömu djöflana – þó þeir birtist okkur í mismunandi myndum, því fíknin og fulltrúar hennar finna sér alltaf farveg.

Við verðum að koma í veg fyrir að nokkur verði fórnarlamb fíknarinnar. Það að nota ekki nikótín á að vera merki um sterka sjálfsmynd og vera til fyrirmyndar fyrir aðra. Styrkur einstaklingsins á að endurspeglast í því að geta sagt nei, láta ekki undan og standa með sjálfum sér. Þannig tryggjum við eigið heilbrigði og verðum fyrirmyndir annarra – samfélaginu til góða.

Íþróttahreyfingin verður að taka að sér forystuhlutverk og vera til fyrirmyndar um heilbrigt líferni. Því miður eru enn of margir innan vébanda hennar sem sjást á vettvangi hreyfingarinnar með úttroðnar varir og tóbaksnef. Við verðum því að biðla til þeirra sem eru málsvarar hreyfingar og lýðheilsu að standa undir því hlutverki að vera til fyrirmyndar.

Á ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði sem við í UMFÍ stóðum fyrir á Laugarvatni í haust kom bersýnileg fram að kynslóðin sem tekur við af okkur er sterk. Það er ljóst að með íslenska forvarnarmódelinu höfum við lagt grunn að betra samfélagi. Upplýstu samfélagi sem byggir á fræðslu og þekkingu á kostum heilbrigðs lífernis og allra þeirra þátta sem leggja grunn að góðri lýðheilsu.

Á dagskrá ráðstefnunnar í dag er mikið af bitastæðu veganesti. Alma Möller landlæknir mun halda ávarp og síðan fáum við fræðslu um áhrif nikótíns á heilsu ungmenna, nikótínfíknina, notkun og neyslu og ýmislegt fleira um birtingarmyndir fíknarinnar.

Framundan er áhugaverð dagskrá sem byggir á gögnum og rannsóknum. Því skulum við njóta dagsins, hlusta og læra því lærdómurinn skilar sér í betra samfélagi.

Finnum gleðina í heilbrigðum lífsstíl og verum öll saman til fyrirmyndar!

 

Hér má sjá fleiri myndir frá málþinginu