Fara á efnissvæði
28. september 2021

Jóhann Steinar sæmdur starfsmerki UMFÍ

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, kom í óvænta heimsókn í vinnuna til Jóhanns Steinars Ingimundarsonar, varaformanns UMFÍ, á föstudag og sæmdi hann starfsmerki UMFÍ.

Haukur þakkaði Jóhanni fyrir störf sín í gegnum tíðina og rifjaði upp að Jóhann Steinar hafi nú setið í stjórn UMFÍ en hann kom inn í hana á sambandsþingi UMFÍ árið 2017.

„Við höfum þar fengið afar góðan liðsmann. Við væntum þess að hann sitji áfram og veiti okkur stuðning og ráð lengi enn,“ sagði Haukur.

Jóhann Steinar er Stjörnumaður og hefur frá unga aldri unnið innan ungmennafélagshreyfingarinnar. Hann sagðist líta á hreyfinguna sem sína aðra fjölskyldu.

„Það er alltaf gaman þegar maður fær viðurkenningu á störfum sínum. Þær eru margar stundirnar, sem flestar eru skemmtilegar. Það og vináttan hvetur mann áfram,“ sagði hann.

Með Hauki voru í för voru þeir Guðmundur Sigurbergsson og Lárus B. Lárusson, sem sitja í stjórn UMFÍ og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

Guðmundur rifjaði upp að Jóhann Steinar hafi flust í Garðabæinn um fermingu. Hans fyrstu kynni af félagsstarfi í Stjörnunni bar þannig til að Bragi Eggertsson hafði samband og bað hann að hjálpa til við undirbúning fyrir leik við sænska liðið Drott í Evrópukeppninni árið 1989.

„Menn sögðu helst ekki nei ef Bragi bað um aðstoð og það gerði Jóhann Steinar heldur ekki og mætti til starfa,“ sagði Guðmundur.  

Jóhann Steinar stundaði körfuknattleiksæfingar hjá Stjörnunni í skamman tíma, hreifst af þeim krafti og gleði sem var í starfinu og fór að hjálpa til hjá handknattleiksdeildinni, á kústi og klukku og fór síðar í meistaraflokksráð.

Jóhann Steinar tók síðan sæti í aðalstjórn Stjörnunnar og hafði þar „marga hatta“. Hann tók við formennsku í Stjörnunni af Snorra Olsen á aðalfundi 2011 og gegndi því fram til ársins 2015.

Jóhann Steinar er enn sem komið er sá eini sem hefur boðið sig fram til formanns UMFÍ í stað Hauks, sem ætlar ekki fram á ný. Kosið verður til stjórnar UMFÍ á sambandsþingi UMFÍ sem haldið verður á Húsavík dagana 15. - 17. október næstkomandi.