Fara á efnissvæði
22. janúar 2021

Jóhann Steinar tekur við sem varaformaður UMFÍ

„Við höfum frá upphafi skipt með okkur verkum í stjórninni og vinnum  afar vel saman. Þegar ný stjórn tók við haustið 2019 ákváðum við Jóhann að hafa sætaskipti um mitt tímabil. Nú erum við rétt rúmlega hálfnuð og kominn tími á þetta,“ segir Ragnheiður Högnadóttir.

Ragnheiður tók sæti varaformanns UMFÍ eftir sambandsþing í október 2019. Hún mun nú verða formaður framkvæmdastjórnar og tekur Jóhann Steinar Ingimundarson sæti hennar sem varaformanns.

 

 

Ragnheiður hefur frá barnsaldri verið tengd ungmennafélagshreyfingunni. Hún tók sæti í stjórn Ungmennafélagsins Drangs í Vík í Mýrdal aðeins 13 ára gömul og hefur síðan þá starfað nær óslitið í stjórnum ungmennafélaga. Þar á meðal í Ungmennafélaginu Kötlu sem varð til við sameiningu Drangs og Ungmennafélagsins Dyrhóleyjar árið 2008. 

Ragnheiður Högnadóttir kom inn í varastjórn UMFÍ á sambandsþingi UMFÍ á Stykkishólmi árið 2013. Á þinginu 2015 tók hún svo sæti í aðalstjórn UMFÍ.

 

Margt framundan hjá UMFÍ 

Jóhann Steinar tók sæti í stjórn UMFÍ á sambandsþingi UMFÍ haustið 2017 og hefur verið formaður framkvæmdastjórnar.  Hann starfaði í aldarfjórðung fyrir UMF Stjörnuna í Garðabæ, sem er aðildarfélag Ungmennafélags Kjalarnesþings (UMSK), þar af síðustu fjögur árin sem formaður aðalstjórnar félagsins.

Ragnheiður og Jóhann segja fjölmörg verkefni vera framundan á vettvangi stjórnar og þjónustumiðstöðvar UMFÍ. Sambandsþing UMFÍ verður haldið í október á þessu ári þar sem mikilvægt er að ræða lífið og lærdóm eftir COVID-faraldurinn, stöðu og hlutverk íþróttahéraða, skiptingu lottótekna innan hreyfingarinnar ásamt ákvörðun um framtíðarstefnu UMFÍ en sú vinna er að hefjast og mun grundvallast á samtali við grasrótina.

Hér má sjá ýmsar myndir úr starfi UMFÍ.