Jóhann tekur við af Erni í stjórn Íslenskrar getspár
Jóhann Steinar Ingimundarson tók sæti í stjórn Íslenskrar getspár á aðalfundi félagsins sem haldinn var á Grand hótel í gær. Jóhann tekur við sætinu af Erni Guðnasyni, fyrrverandi varaformanni UMFÍ. Örn sat í stjórn fyrirtækisins í fjögur ár, var varaformaður fyrstu tvö árin og síðan formaður síðastliðin tvö ár. UMFÍ þakkar Erni setu í stjórn Íslenskrar getspár.
Jóhann Steinar tekur sæti stjórnarmanns UMFÍ sem á einn fulltrúa í stjórninni. Íþrótta- og Ólýmpíusamband Íslands á tvo fulltrúa í stjórninni og Öryrkjabandalag Íslands tvo fulltrúa.
Rekstur Íslenskrar getspár gekk afbragðsvel og var síðasta rekstrarár það besta frá upphafi.
UMFÍ á 13,33% eignarhlut í Íslenskri getspá og greiðir sambandsaðilum 79% af arði sínum ár hvert. Til UMFÍ fara 14% og 7% í Fræðslu- og verkefnasjóð. Því má segja að um 86% fari til sambandsaðila. Þegar aukaúthlutun er greidd út ef afkoma Íslenskrar getspár hefur verið sérstaklega góð þá fá sambandsaðilar UMFÍ það sömuleiðis.
Með því að kaupa lottó eða spila í getraunum styrkja því spilarar íþróttastarf um allt land.
Á myndinni er Örn Guðnason á aðalfundi Íslenskrar getspár.