Fara á efnissvæði
28. mars 2023

Jóhanna hjá USÚ: Ég kom af fjöllum!

„Ég er mest í því að veita öðrum viðurkenningar og bjóst þess vegna ekki við því að fá eina sjálf. Ég kom af fjöllum!“ segir Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður Ungmennasambands Úlfljóts (USÚ), þegar Sigurður Óskar Jónsson sæmdi hana starfsmerki UMFÍ á 90. ársþingi sambandsins í síðustu viku.

Sigurður Óskar var fulltrúi UMFÍ á þinginu en hann situr bæði í stjórn UMFÍ og er gjaldkeri USÚ.

Jóhanna segist ekki velta því fyrir sér að eiga von á viðurkenningu fyrir sjálfboðaliðastörf sín. Hún hefur verið formaður USÚ síðastliðin sjö ár eða síðan hún var 29 ára gömul.

„En ég viðurkenni alveg að mér hlýnaði við þetta,“ segir hún.

Þingið var vel sótt, en 36 þingfulltrúar mættu af þeim 52 sem rétt áttu til þingsetu, frá sjö af þeim níu félögum sem senda máttu fulltrúa. Þingið gekk snurðulaust fyrir sig og tók aðeins tvær klukkustundir að ljúka hefðbundinni dagskrá. Á meðal efnis á dagskrá var að hvetja fólk til þátttöku á Unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðarkróki um verslunarmannahelgina og Landsmót UMFÍ 50+ í Stykkishólmi.

Auk þess var valinn Íþróttamaður ársins 2022 og var það Þorlákur Helgi Pálmason, sem spilar knattspyrnu með Sindra.

Auk þess var samþykkt ný reglugerð um skiptingu lottótekna USÚ til aðildarfélaga.

 

Tillögurnar og lóttóreglurnar má sjá hér

Jóhanna segir góðan ganga í þinginu skrifast öðru fremur að því að stjórn félagsins sé vel undirbúin. Hún bætir við að þingin skipi sérstakan sess í huga hennar.

„Mér finnst þau alltaf vera hátíð, því þetta er eina skiptið sem fulltrúar allra aðildarfélaga koma saman og við fáum tækifæri til að hitta alla,“ segir hún.

 

Hér má lesa meira um þing USÚ