Fara á efnissvæði
05. júní 2019

Jóhanna segir ferð með UMFÍ bæta tengslin innan hreyfingarinnar

„Mér fannst þetta alveg æðisleg ferð. Þarna tengdist ég öðrum í ungmennafélagshreyfingunni miklu betur en áður og fékk margar góðar hugmyndir sem við getum útfært fyrir okkar samband,“ segir Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður Ungmennasambandsins Úlfljótur (USÚ) á Höfn í Hornafirði. Unglingalandsmót UMFÍ fer fram í Höfn um næstu verslunarmannahelgi.

Jóhanna var á meðal tæplega sextíu fulltrúa sambandsaðila UMFÍ og aðildarfélaga sem fóru til Danmerkur á dögunum ásamt stjórn UMFÍ. Í samræmi við stefnu UMFÍ að efla samstarf voru fulltrúar frá ÍSÍ, ÍBR og aðildarfélögum með í ferðinni. UMFÍ hefur farið nokkrum sinnum í ferðir utan sem þessar til að kynnast verklagi og verkefnum erlendis. Það hefur skilað sér í meira samstarfi á milli sambandsaðila UMFÍ.

 

Markmið ferðarinnar var að hitta forsvarsmenn DGI – Danmarks Gymastik – og Idrætsforeninger – sem eru systursamtök UMFÍ Danmörku. Góð samvinna og vinskapur hefur um árabil verið á milli samtakanna og koma margar hugmyndir að verkefnum UMFÍ frá DGI.

Hópurinn sat m.a. forvitnilegan fyrirlestur Ola Mattsson um nýbreytni í gerð íþróttamannvirkja, sem svara kalli nútímans. Þar sé gert ráð fyrir minni íþróttavöllum, battavöllum, klifursvæði, hjólabrautum og hjólabrettavöllum. Hann sagði áhersluna ekki eiga að vera á byggingu stórra íþróttahúsa sem kosti mikið og dýrt sé að starfrækja.

Þá fékk hópurinn kynningu á starfi DGI, Hreyfivikunni og fleiri verkefnum ISCA sem miða að því að fá fleiri til að hreyfa sig, ISCA – International Sport and Culture Association, eru samtök ýmissa grasrótarsamtaka á sviði íþrótta, almenningsíþrótta og menningar.

Auk þessa sátu ferðalangarnir fyrirlestur um innleiðingu rafíþrótta í íþróttafélög, ýmis verkefni með ungu fólki sem miða að því að ná til þeirra sem standa utan skipulags íþrótta- og æskulýðsstarfs og ýmislegt fleira.

Jóhanna segir ferðir sem þessar ómetanlegar. Þær séu mikilvægar til að tengja betur saman fólk innan ungmennafélagshreyfingarinnar – og utan hennar – og muni það vafalítið leiða til þess að starf félaganna batni til muna.

 

Hér má sjá nokkrar myndir af fyrirlestrum sem hópurinn sat. Fleiri myndir eru á myndasíðu UMFÍ