Fara á efnissvæði
25. maí 2022

Jóhannes Guðlaugsson: Mikilvægt að hlusta á börnin

Mikilvægt er að byrja strax að vinna með börnum af erlendum uppruna í íþróttum og kynna starfið fyrir þeim. Í Breiðholti sé verkefni í gangi sem miðar að því að auðvelda börnum í 1.-2. bekk grunnskóla að fara á milli íþróttagreina. Jóhannes Guðlaugsson, verkefnastjóri í þjónustumiðstöð Breiðholts, tók þátt í málþingi UMFÍ og ÍSÍ í morgun um þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþróttastarfi.

Yfirskrift málþingsins var: Vertu með! Aukin þátttaka barna og ungmenna af erlendum uppruna í íþróttum. Eins og yfirskriftin bar með sér var umfjöllunarefnið það hvernig hægt er að ná betur til fólks af erlendum uppruna og fjölga iðkendum af erlendu bergi brotið í skipulögðu íþróttastarfi. Á dagskránni voru áhugaverð og gagnleg erindi. Meðal annars sagði forsvarsfólk nokkurra íþróttafélaga frá því hvað þau gerðu til að ná árangri í málaflokknum.

Jóhannes sagði frá verkefninu í Breiðholti, sem miðar að því að auðvelda börnum í 1.-2. bekk grunnskóla að fara á milli íþróttagreina. Íþróttafélögunum er greitt vegna þessa svo börnin geti fært sig á milli félaga.

Einn af lyklunum til að ná árangri sé að kynna íþróttastarfið vel fyrir öllum hópum, bæði fyrir börnum, foreldrum, kennurum og fleirum.

„Við fórum í alla skólana og alla bekki síðasta haust og ræddum um frístundastarfið. Við ræddum við kennara. Þau hjálpa okkur að spotta hvaða krakkar eru ekki að gera neitt. Við höfum sent út bæklinga, gert vídeó og fleira. En við þurfum að ná betur til foreldra og sendum því börnin heim með bæklinga,“ sagði Jóhannes og benti á að starf hans sé að vera íþrótta- og frístundatengill.

Hann benti jafnframt á að í fyrra hafi hann tekið 253 viðtöl við fólk og 172 einstaklingar fengið aðstoð. Stundum hittir hann sama einstaklinginn eða fjölskylduna allt upp undir 6-7 sinnum.

„Það þarf natni í þetta og að hafa mjög mikið fyrir því,“ sagði hann og bætti við að ein af ástæðum þess að lægra hlutfall barna af erlendu bergi brotið stundi skipulagt íþróttastarf sé vegna þess að fjölbreytni vanti. Þetta sé ástæðan fyrir því að mjög algengt er að börn af erlendum uppruna fer ekki á Símamótið, Nettómótið og önnur stórmót fyrir börn á grunnskólaaldri.

„Ýmislegt sem börnin vilja er ekki í boði og því er mjög mikilvægt að grípa það sem börnin óska eftir,“ sagði hann.

 

Mörg forvitnileg erindi

Fjöldi annarra erinda var á málþinginu sem öll fjölluðu um sömu mál.

Á meðal annarra erinda:

Allir með í Reykjanesbæ: Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála.

Örfrásagnir af fjórum ólíkum verkefnum: Ragnar Sverrisson frá Dansfélaginu Bíldshöfða. Dagný Finnbjörnsdóttir frá Héraðssambandi Vestfirðinga. Kristín Þórðardóttir frá sunddeild KR og Sarah Smiley frá Skautafélagi Akureyrar.

Fjölmenningarverkfærakista Æskulýðsvettvangsins: Sema Erla Serdar, framkvæmdastýra.

 

Myndir frá málþinginu